141. löggjafarþing — 96. fundur,  9. mars 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

630. mál
[14:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að mæla fyrir þessu máli. Um nokkuð stórt og mikið mál er að ræða, það segir sig sjálft þegar verið er að fara í töluverðar breytingar á því kerfi námslána sem við höfum haft hér um árabil. Nokkur meginmarkmið eru lögð hér til og þeim skipt í nokkra liði. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að einhver þróun eigi sér stað í þessu kerfi eins og öllu öðru. Það er ekkert athugavert við það. Stjórnmálaflokkarnir hafa í gegnum tíðina haft ýmsar skoðanir á Lánasjóði íslenskra námsmanna og því kerfi sem við erum með til að styðja við þá sem eru í námi. Eins og kemur fram hér er verið að bregðast við breytingum sem hafa orðið á íslenska háskólakerfinu og síðan er verið að bregðast við skýrslum Ríkisendurskoðunar og ábendingum hagsmunaaðila og annarra sem hafa áhuga á og gera athugasemdir við það kerfi sem verið hefur við lýði.

Framsóknarflokkurinn skipaði fyrir nokkru, ætli það sé ekki að minnsta kosti komið ár, hóp sem átti að fara yfir menntamál og móta grunninn að menntastefnu flokksins. Hún var samþykkt á síðasta flokksþingi. Þar kemur meðal annars fram að flokksþingið tekur undir og segir að það vilji fylgja eftir tillögum Sambands ungra framsóknarmanna um að hluti af námslánum breytist í styrk ljúki nemandi námi á tilskildum tíma. Það er hins vegar ekki farið í nánari útfærslu á þessu og þar af leiðandi er afar forvitnilegt að sjá hvernig þetta er útfært í fyrirliggjandi frumvarpi.

Ýmislegt kemur fram í athugasemdum fjárlagaskrifstofu við frumvarpið þar sem menn hafa aðeins hnýtt í það og eru að velta vöngum yfir kostnaði. Ég held að það sé mjög mikilvægt að áður en málið er klárað liggi fyrir áætlaður kostnaður og þá að sjálfsögðu líka hvernig hann verður fjármagnaður. Að sjálfsögðu þarf að tryggja að rekstur sjóðsins sé eðlilegur. Ég hef nokkrar áhyggjur af því hvernig það muni ganga að tryggja fjármagnið í ljósi þeirra upplýsinga sem við höfum aðeins minnst á í dag um hagvaxtarspár og hvernig ríkissjóði muni ganga að afla sér tekna á næstunni. Það er fyrirkvíðanlegt ef við sjáum ekki til lands heldur sjáum þvert á móti fram á þrengri stöðu en menn gerðu ráð fyrir þegar til dæmis fjárlög fyrir þetta ár voru samþykkt.

Ég fagna því að þetta mál er komið fram. Ég treysti því að það fái vandaða og góða umræðu í nefndinni og að leitað verði álits, það kostnaðarmetið o.s.frv.

Ég vil þó koma einu enn á framfæri um þetta. Í stefnu framsóknarmanna um menntamál er fjallað um skólastigin og ýmislegt minnst á þar eins og nýja tækni og möguleika í námi. Ég ítreka þó að það er mikilvægt að við bregðumst við ákalli úr atvinnulífinu á næstu árum og gerum allt sem við getum til þess að fjölga iðn- og tæknimenntuðu fólki. Þar með er ekki verið að gera lítið úr annarri menntun, heldur er alveg ljóst að það er mikil eftirspurn hjá íslenskum fyrirtækjum eftir fólki með þessa menntun og þar af leiðandi þurfum við einhvern veginn að búa til hvata, hugsanlega í samstarfi við atvinnulífið, til að ýta fleirum af stað í það nám sem ég nefndi áðan.

Frú forseti. Ég hef þetta ekki lengra að sinni. Ég lýsi ánægju minni með málið og að grunnhugmyndin í því fellur að því sem framsóknarmenn ályktuðu á flokksþingi sínu, þ.e. að hluti námslána breyttist í styrk, en að sjálfsögðu þurfum við svo að koma okkur saman um eða ræða útfærsluna á því máli.