141. löggjafarþing — 96. fundur,  9. mars 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

630. mál
[14:32]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið erum við að ræða frumvarp til heildarlaga um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem starfshópur hefur unnið að fyrir hönd ráðuneytisins. Eins og einnig hefur komið fram, m.a. hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, hefur margt í þessu frumvarpi skýra skírskotun til stefnu okkar framsóknarmanna. Til að mynda er hér fjallað um að lögin eigi að veita fólki tækifæri til náms án tillits til efnahags. Við framsóknarmenn höfum bætt við búsetu og höfum gjarnan staðið vörð um sjóðinn í gegnum tíðina.

Það nýmæli sem hér er lagt til, að taka upp tiltekna styrki standist menn námshraða til þess að lækka höfuðstól, er samhljóma tillögum sem meðal annars ungir framsóknarmenn hafa komið fram með og eru í stefnuskrá síðasta flokksþings. Út af fyrir sig ætla ég því ekki að setja út á frumvarpið sem slíkt hvað þetta varðar, þó er verulegur ágalli á að það skortir kostnaðarmat í þessu frumvarpi. Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins fjallar sérstaklega talsvert um þetta mál á mörgum síðum án þess að segjast geta komist að nákvæmri niðurstöðu vegna skorts á forsendum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þó segir hún að styrkjaleiðin gæti, þegar lögin yrðu komin til fullra framkvæmda vorið 2017, numið um 3 milljörðum og strax vorið 2016 um 700 milljónum miðað við gefnar forsendur. Fjárlagaskrifstofan bendir á að við undirbúning frumvarpsins hjá ráðuneyti mennta- og menningarmála hafi ekki verið gerður útreikningur á kostnaðaráhrifum miðað við gagnasöfn sjóðsins um lánþega og framreikniforsendur og að ráðuneytið hafi litlar upplýsingar getað veitt um þann talnagrundvöll sem nauðsynlegur er til að meta fjárhagsleg áhrif frumvarpsins.

Hér á göngunum hefur heyrst að menn hafi verið að tala um ólíka nálgun að þessu, jafnvel talað um allt að 4 milljörðum hjá fjármálaráðuneytinu, en ef ég hef heyrt rétt nefndi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra 2 milljarða. Það er auðvitað frumforsenda til að hægt sé að fjalla um málið af einhverju viti að þetta liggi fyrir.

Fjárlagaskrifstofan fjallar líka um að þetta muni koma nokkuð ójafnt niður hjá ólíkum námsmannahópum. Þannig er til að mynda bent á að námsmenn sem búa í foreldrahúsum og hafa þar af leiðandi fengið um 50% framfærslulán fá jafnmikinn styrk og hinir sem hafa tekið 100% lán. Styrkurinn getur í einstaka tilfellum numið 70% af heildarnámsláni og farið niður í 10–11% hjá öðrum. Það þarf sannarlega að skoða.

Þegar við erum sérstaklega að tala um takmörkuð fjárráð ríkisins á næstu árum velti ég fyrir mér hvort þetta sé besta leiðin til að örva þann hvata að fólk fari hraðar í gegnum háskólanám. Eru ef til vill aðrar leiðir færar og getum við fjármagnað þetta öðruvísi? Það má til dæmis nefna að þeir sem kannski mest þurfa á styrk að halda, þá á félagslegum forsendum, ekki sem hvata til að klára nám, eru þeir sem verða fyrir seinkun í námi vegna veikinda, barnsburðarleyfa eða einhvers slíks. Það má segja að þá þyrftu einhver önnur kerfi að taka á því og það er félagsleg aðstoð en ekki þessi hugsunarhvati.

Hér er vísað til fordæma á Norðurlöndunum og þar sem ég lærði í Danmörku upplifði ég það kerfi hjá félögum mínum þar, þar sem menn fengu um 40% af framfærslunni sem styrk, að þeir sem ekki nutu styrkja og lögðu fyrir og áttu eigið fé til þess að lifa af þennan tíma eða áttu efnaða foreldra sem studdu þá fóru út á vinnumarkaðinn og voru í 50% vinnu. Afleiðingin varð sú að náminu seinkaði. Í námi eins og ég var í, sem tekur fimm og hálft til sex ár, voru til þess að gera fáir sem kláruðu á réttum tíma. Margir seinkuðu námi sínu um eitt til tvö, jafnvel þrjú eða fjögur ár, og útskrifuðust 28 og 29 ára gamlir þrátt fyrir að þeir kæmu inn í háskóla á nítjánda aldursári. Þeir kláruðu fimm eða sex ára nám á átta, níu eða jafnvel tíu árum. Þá höfðu þeir aldrei unnið fullan vinnudag, heldur einungis hálfan, og áttu sumir erfitt með að fóta sig á vinnumarkaði, sérstaklega í krefjandi störfum, eins og dýralækningum, þar sem eru miklar vaktir og bakvaktir. Þeim fannst það hreinlega of mikið álag.

Einnig má nefna það, af því að við höfum líka talað um að stytta nám til stúdentsprófs og fá fólk fyrr inn í háskólana, að mjög margir hófu háskólanám og þegar þeir höfðu verið þar um tveggja ára skeið tóku þeir eins árs hlé, ferðuðust út í heim til þess að ná þeim aukna þroska sem fólk á þessum aldri gjarnan vill gera og það varð auðvitað heldur ekki til þess að flýta náminu. Þetta er nokkuð sem þarf að vega og meta og skoða. Ég tek undir að það sé jákvætt að undirbúningsnám fyrir háskóla og ýmislegt sérnám fái lagastoð í því að veitt verði lán, en lánasjóðurinn hefur veitt lán á þessum vettvangi umfram lagaskyldu og það er nauðsynlegt, ekki síst á þessum tímum erfiðleika í atvinnuástandinu. Eins er brýnt að koma þeim sem duttu út úr skólakerfinu aftur inn í það. Þeir geta átt erfitt með það ef þeir eiga ekki aðgang að fjármagni, til að mynda lánum.

Þá er líka rétt að nefna eitt sem starfshópurinn hafnaði eða ráðuneytið leggur ekki hér fram og það er að skoða hvort það sé eðlilegt þegar menn hafa náð lífeyrisþegaaldri, 67 árum eða hvort hann verður 70 ár, að menn séu þá enn að greiða af námslánum og hvort það eigi að skoða aftur að lánin falli niður eftir 40 ár eða að endurgreiðslan verði létt með einhverjum hætti, sérstaklega nú og á allra næstu árum á meðan lífeyrissjóðakerfið stendur ekki undir meiri launum en raun ber vitni þessi missirin.

Ég ætla svo sem ekki að lengja þetta frekar, frú forseti, heldur ítreka að margt í þessu frumvarpi er jákvætt og í samræmi við stefnu okkar framsóknarmanna. Það kemur dálítið seint fram og væntanlega dettur engum í hug að það klárist á þessu þingi. Það þarf að skoða ýmsa þætti þess vel og þá kannski nokkra af þeim sem ég nefndi hér og ekki eru í frumvarpinu.