141. löggjafarþing — 96. fundur,  9. mars 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

630. mál
[14:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hér hafa talað um þetta frumvarp og ætla að leitast við að svara nokkrum af þeim spurningum sem hér var varpað fram, síðast hjá hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni sem nefndi einmitt þann möguleika að öll námslán mundu falla niður við 67 ára aldur. Það kom fram í framsöguræðu minni að sú breyting mundi hafa í för með sér mjög mikinn einskiptiskostnað, u.þ.b. 17 milljarða kr. Þess vegna er hún ekki lögð til hér og ég held að það skýri sig í sjálfu sér sjálft ef við lítum til stöðu ríkissjóðs.

Margir hafa rætt um kostnaðarmatið og það er ósköp eðlilegt þegar fyrir liggur að það er misræmi milli kostnaðarmats fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og þess kostnaðarmats sem mennta- og menningarmálaráðuneytið vann í samráði við lánasjóðinn og Ríkisendurskoðun. Þess vegna hef ég óskað eftir úttekt frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, bæði til að meta kostnaðinn en líka hin þjóðhagslegu áhrif sem væntanlega eru nokkur af þessu frumvarpi.

Mig langar til að fara í nokkrar einstakar greinar sem hv. þingmenn hafa spurt hér um.

Fyrst er þar til að nefna að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir óskaði nánari skýringa á 18. gr. Eins og ég gerði að umræðuefni í framsögu minni er þessi grein nýmæli og er nauðsynlegt að ræða hana. Þar er kveðið á um að ráðherra hafi heimild til þess að kveða í reglugerð á um sérstakar ívilnanir til námsmanna sem hefja nám í tiltekinni námsgrein á tilteknu tímabili sem fremi þeir uppfylli skilyrði 12. gr. um námsframvindu. Þar er til að mynda vitnað til námsgreina eða faga þar sem er skortur á menntuðu fólki til starfa. Ástæða þess að þetta er eindregið lagt til í nýrri skýrslu um eflingu leikskólastigsins er að verulegur skortur á menntuðum leikskólakennurum er fyrirsjáanlegur. Mér finnst rétt að nefndin ræði þessa grein út frá því hvort þá sé ástæða til að hafa slíkt heimildarákvæði. Ég vil líka segja að það er mjög nauðsynlegt að fara sparlega með slík heimildarákvæði þannig að þau gildi ekki um allt námsval. Í sjálfu sér er hægt að rökstyðja að það sé skortur á fólki í ýmsum greinum og þá þurfa að vera mjög knýjandi rök fyrir því að gefa sérstakar heimildir fyrir slíkum ívilnunum.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir óskaði líka eftir umræðu um þær breytingar sem gerðar eru á 21. gr. Því er til að svara að þarna er verið að uppfæra, getum við sagt, ákvæði laganna til þess sem almennt gerist í lagasafninu um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og forstöðumenn ríkisstofnana en þessi grein er mjög stutt í gildandi lögum þar sem eingöngu er kveðið á um að framkvæmdastjórinn skuli skipaður og að hann skuli ráða annað starfsfólk. Þetta þykir eðlilegra miðað við lagasafnið eins og það er nú.

Líka var spurt um 8. gr. og sérstaklega um skipan lánshæfismatsnefndar því að þarna er ekki kveðið á um að fulltrúar í henni skuli tilnefndir af tilteknum aðilum. Það er rétt. Við lítum svo á eftir að hafa skoðað þetta mál að þarna sé fremur rétt að gera ráð fyrir ákveðnu hæfi sem felist þá í sérþekkingu á uppbyggingu háskólanáms eða lögfræðiþekkingu. Enn fremur er gert ráð fyrir að nefndin geti leitað aðstoðar hjá ENIC/NARIC á Íslandi þegar kemur að mati á námi erlendis, þ.e. þeirri stofnun sem fæst við að meta nám á milli landa. Þetta er í sjálfu sér svipað og málskotsnefndin, ef við viljum bera það saman, þar er ekki gert ráð fyrir að einstaklingar séu tilnefndir í nefndina heldur eingöngu að það sé leitað til einstaklinga sem uppfylla tilteknar hæfiskröfur.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir spurði einnig um skoðun mína á því að teknar væru upp skattaívilnanir til fyrirtækja sem taka nema í doktorsnám. Það kann að vera mjög góð umræða en ég tel ekki að hún tengist þessu frumvarpi, hún á þá frekar við umræðu um skattalöggjöfina sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðherra. Það er þó rétt að heilmikil umræða hefur verið um það í vísindasamfélaginu að byggja megi fleiri hvata inn í skattkerfið til að styðja við rannsóknir og vísindi. Þetta væri þá angi af þeirri umræðu og ég er opin fyrir slíkri umræðu þó að hún eigi ekki heima í þessu frumvarpi.

Spurt var einnig út í þær spurningar sem eru uppi um framkvæmd verðtryggðra lána. Þær snúa kannski einkum núna að framkvæmd tilskipunar um neytendalán þar sem undir heyra íbúðalán, en þegar spurt var hvort unnt væri að veita óverðtryggð námslán líkt og rætt hefur verið um að Íbúðalánasjóður veiti óverðtryggð íbúðalán sem valkost við verðtryggð íbúðalán er það nokkuð sem er eðlilegt að skoða. Við ræddum þetta nokkuð en fórum ekki út í tillögur um breytingar á þessu nú þar sem Lánasjóður íslenskra námsmanna fjármagnar sig verðtryggt með 5,5% vöxtum. Hann lánar út með 1% vöxtum. Það er ágætt að það komi fram líka því að hv. þm. Pétur H. Blöndal ræddi vaxtaprósentu sjóðsins sem er í lögum. Það er óbreytt frá gildandi lögum, að hámarki 3%, en hún hefur hins vegar verið 1% allmörg undanfarin ár. Ætli hún hafi hreinlega ekki verið það allt frá 1992. Það þýðir að það þarf að endurskoða algjörlega fjármögnun sjóðsins ef sjóðurinn á einhliða að fara að bjóða upp á óverðtryggð lán og við töldum ekki tímabært að skoða það. Þar þarf líka að hafa í huga að ólíkt íbúðalánum eru endurgreiðslur námslána tekjutengdar og á bak við það er félagsleg hugsun þannig að þá þyrfti væntanlega að endurskoða endurgreiðslurnar í samhengi við þetta. Þess vegna fórum við ekki út í slíkar breytingar þó að þær hafi lauslega verið skoðaðar í aðdraganda þessa frumvarps.

Það var spurt út í breytingar á ákvæðum 22. gr. þar sem rætt er um málskotsnefndina og úrskurði hennar. Þar eru gerðar ákveðnar breytingar fyrir utan að þar er því bætt inn að ákvarðanir lánshæfismatsnefndarinnar, sem er að sjálfsögðu ný samkvæmt þessu frumvarpi, eru líka kæranlegar til málskotsnefndar, það er eðlileg breyting, og frestur stjórnar er lengdur. Það er gert að ósk stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem telur núgildandi fresti of stutta og það var mat okkar að þau færðu málefnaleg rök fyrir þeim sjónarmiðum sínum.

Hv. þm. Pétur Blöndal velti því upp hvort einhverjir færu að skrifa upp á ábyrgðir við 65 ára aldur ef ábyrgðir falla niður við 67 ára aldur eins og hér er lagt til, en þá er rétt að minna á að árið 2009 samþykkti Alþingi að fella niður kröfu um ábyrgðarmenn á ný námslán þannig að það er ekki í boði fyrir neinn 65 ára að fara að skrifa upp á ábyrgð. Það er hreinlega ekki gerð krafa um það lengur.

Það hefur verið rætt um að frumvarpið hafi tekið tíma. Það er rétt, það hefur tekið tíma af því að mikið samráð hefur verið haft við ýmsa aðila sem mér finnst eðlilegt við slíka vinnu. Eins og hér er gerð ítarleg grein fyrir í I. kafla í athugasemdum við lagafrumvarpið var farið yfir þær umsagnir þannig að þessi vinna hefur staðið frá árinu 2011. Ég tel að mjög hafi verið til hennar vandað og það er að heyra af umræðunum hér í dag að þessi mikla vinna hafi líka að einhverju leyti skilað sér. Mér heyrast hv. þingmenn jákvæðir fyrir efnisatriðum frumvarpsins og ég fagna því að sjálfsögðu mjög.

Það er rétt sem hér hefur verið bent á, ef frumvarpið verður samþykkt er gert ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. september 2014. Það er til að hafa hreinar línur í því að um þá sem hefja nám eftir gildistíma gilda ný lög. Það þýðir hins vegar að sjálfsögðu að kostnaðaráhrif falla að fullu til á árinu 2017 og síðar og mér finnst það mikilvægt, af því að hér höfum við rætt talsvert um kostnað og ýmis önnur mál hafa auðvitað líka verið nefnd í því samhengi, að benda á að núverandi ríkisfjármálaáætlun nær til 2016 og það er því ljóst að við endurskoðun hennar verður gert ráð fyrir kostnaðaráhrifum þessa frumvarps. Væntanlega tekur ný og endurskoðuð áætlun gildi árið 2016.

Ég hef hér leitast við að svara þeim spurningum sem til mín var beint í umræðunni og vil að lokum þakka hv. þingmönnum fyrir málefnalegar og jákvæðar umræður. Ég vonast til þess að þær beri þann ávöxt að við eigum eftir að sjá ganga í gegn þessar breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna.