141. löggjafarþing — 96. fundur,  9. mars 2013.

endurbætur björgunarskipa.

471. mál
[14:51]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tala hér fyrir nefndaráliti frá allsherjar- og menntamálanefnd. Hún hefur fjallað um málið og er sammála í niðurstöðu sinni. Samkvæmt tillögunni er innanríkisráðherra falið að gera samkomulag við Slysavarnafélagið Landsbjörg um endurbætur og viðhald björgunarskipa á árunum 2014–2021.

Það kom fram í nefndinni að það er mjög mikil og vaxandi þörf fyrir þessa þjónustu og eru 70–80 útköll á ári þar sem um bráða hættu er að ræða. Það er enginn vafi á því að hér er um að ræða mjög mikilvægan hlekk í öryggiskerfi landsins. Það er vilji hv. nefndar að útbúnaðurinn til björgunar og slysavarna sé ávallt í fullkomnu ásigkomulagi, enda er það forsenda þess að hægt sé að ná árangri á þessu sviði.

Það er engin ástæða til þess að hafa mörg orð um þetta. Það er við hæfi að við ræðum þetta mál nú og göngum frá því þar sem það byggir á frumvarpi sem 1. flutningsmaður, hv. þm. Jón Gunnarsson, mælti fyrir. Hann þekkir þau mál betur en flestir aðrir og ánægjulegt að það sé komið að hans frumkvæði og fleiri hv. þingmanna. Málið klárast hér vonandi í góðri sátt. Í það minnsta ætti öllum að vera ljóst hvað björgunarsveitirnar eru mikilvægur þáttur í öryggiskerfi landsins. Fyrir nokkrum dögum sýndu þær enn og aftur fram á mikilvægi sitt þegar slæmt veður varð á suðvesturhorninu og víðar á landinu.

Virðulegi forseti. Það er engin ástæða til að lengja þetta. Um þetta mál er góð samstaða. Þeir sem rita undir nefndarálitið eru hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson, Skúli Helgason, Þráinn Bertelsson, Ólafur Þór Gunnarsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Siv Friðleifsdóttir og Birgitta Jónsdóttir.