141. löggjafarþing — 96. fundur,  9. mars 2013.

veiting ríkisborgararéttar.

621. mál
[15:03]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um veitingu ríkisborgararéttar frá allsherjar- og menntamálanefnd. Hér er um það að ræða að við höfum um árabil haft þann háttinn á að allsherjar- og menntamálanefnd og forverar hennar hafa tekið við umsóknum frá einstaklingum sem hafa haft hug á því að sækja hér um ríkisborgararétt en hafa ekki uppfyllt öll skilyrði laga um íslenskan ríkisborgararétt. Þetta hefur gefið þinginu færi á því að meta hvert tilvik fyrir sig, m.a. út frá mannúðar- og sanngirnissjónarmiðum. Það fyrirkomulag hefur skipt mjög miklu máli fyrir þá einstaklinga sem um ræðir.

Á þessu vorþingi hafa borist 36 umsóknir frá fólki hvaðanæva að á heimsbyggðinni. Eins og undanfarin ár tóku þrír nefndarmenn að sér það mikilvæga verkefni að fara í gegnum þessar umsagnir, vega þær og meta og leggja síðan tillögu fyrir allsherjar- og menntamálanefnd sem er stofn þessa frumvarps.

Niðurstaðan er sú að það er mælt með því að 13 einstaklingar hljóti ríkisborgararétt af þessu tilefni. Þeir koma víða að, ýmsir frá stríðshrjáðum löndum og löndum þar sem mannréttindabrot hafa verið venju fremur algeng. Þar má nefna Kósóvó, Líberíu, Írak og Líbanon, en niðurstaða nefndarinnar er að leggja til að þessir 13 einstaklingar hljóti ríkisborgararétt að þessu sinni. Vona ég að þingheimur taki vel í þessa málaleitan því að hér hefur verið farið mjög vel yfir málsástæður í hverju tilviki fyrir sig og sú niðurstaða sem hér liggur á borðinu er vel ígrunduð að mínu mati enda er hún studd af nefndarmönnum úr öllum flokkum.