141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[11:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Það er við svolítið sérstakar aðstæður sem við stöndum hér í dag, það er vegna vantrauststillögu hv. þm. Þórs Saaris. Mér finnst þessi umræða að mörgu leyti sérstök og það er af ýmsum ástæðum.

Þegar núverandi ríkisstjórn tók við í kjölfar hruns fjármálakerfisins blöstu við mjög hrikalegar afleiðingar hrunsins fyrir heimili, fyrirtæki og ríkissjóð. Við vissum þá þegar að ríkisstjórnin mundi ekki skora hátt í vinsældamælingum, til þess voru verkefnin einfaldlega of erfið og nauðsynlegar aðgerðir of sársaukafullar.

Hæstv. forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að það tilefni sem valið er til vantrausts undrar mig vegna þess að það mál sem hér er valið hefur verið í höndum þingsins allan tímann. Það hefur verið unnið efnislega vel af þinginu, haft hefur verið víðtækt samráð við þjóðina, eins og farið hefur verið yfir, og ríkt samtal hefur átt sér stað um það hvernig stjórnarskrá við viljum sjá til lengri tíma. Hver hefur staðið fyrir því? Það hefur meiri hluti þingsins gert undir forustu stjórnarflokkanna. Við höfum staðið fyrir því. Þess vegna undrar mig að hv. þingmaður skuli núna fara í bandalag með þeim öflum sem harðast hafa barist gegn þessu máli á Alþingi og munu því miður með samþykkt þessarar tillögu í dag, ef af verður, ná fullnaðarsigri gegn nýrri stjórnarskrá. Það er sá leiðangur sem hv. þm. Þór Saari stendur fyrir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Við skulum hafa það algjörlega á hreinu.

Frú forseti. (ÞSa: Það eruð þið sem standið …) Ríkisstjórnin hefur stutt þetta mál (Gripið fram í.) með ráðum og dáð allt þetta kjörtímabil. (Gripið fram í.) Það sýna verkin. Ég verð að segja að það eina sem mun fást út úr þessu hér í dag, þar sem til þingkosninga hefur verið boðað eftir um sjö vikur, er að þegar greidd utankjörfundaratkvæði munu verða lýst ógild og kosningar hugsanlega færðar til um tvo, þrjá daga.

Virðulegi forseti. Fyrsta fórnarlambið vegna uppnáms þingstarfa verður líklega sjálf stjórnarskráin og þær tilraunir sem nú eru í gangi til að tryggja að áfram verði unnt að byggja á hinni miklu vinnu sem unnin hefur verið og því mikla samráði sem haft hefur verið við þjóðina í þessu máli og kom skýrt fram í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október síðastliðinn. Sú leið sem verið er að móta um breytingar á einstökum greinum, t.d. nauðsynlegu auðlindaákvæði, og um áframhaldandi vinnu við málið nýtur mikils stuðnings fólks sem á sér fyrst og fremst þá ósk að við náum að ljúka heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Það er því sárt að heyra um svikabrigsl í þessu samhengi þegar verið er að vinna úr fyrirliggjandi stöðu svo að sómi sé að.

Við megum heldur ekki gleyma mikilvægum málum sem brýnt er að þingið ræði og ljúki. Ég get nefnt breytingar á auðlindalögum þar sem stigið er skref til að vinda ofan af einkavæðingu Framsóknar og Sjálfstæðisflokks á grunnvatni landsins. Varla erum við hv. þm. Þór Saari ósammála um mikilvægi þess máls. Síðar á dagskrá í dag er frumvarp um breytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóðanna sem getur veitt allt að 100 milljörðum af nýju fjármagni inn í vaxandi íslensk fyrirtæki með tilheyrandi fjölgun starfa og jákvæðum áhrifum á vöxt. Ég get líka nefnt frumvarp um heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins, nýjan Landspítala við Hringbraut, stórfellda atvinnuuppbyggingu á Norðausturlandi, kjarabætur til handa námsmönnum og ný náttúruverndarlög. Mörg önnur brýn mál bíða og hér erum við að ræða um vantraust á ríkisstjórnina sjö vikum fyrir kosningar.

Frú forseti. Þetta er skrípaleikur. Við á Alþingi höfum nefnilega verk að vinna og þjóðin gerir eðlilega kröfur til okkar um vinnubrögð og árangur og undir því eigum við að standa.

Hér hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks viljað slíta þetta vantraust úr samhengi við stjórnarskrána sem málið er klárlega lagt fram í tilefni af. Þeir telja að ríkisstjórnin hafi ekki gert nokkurn skapaðan hlut á þessu kjörtímabili. Hér komu stórtíðindi hjá formanni Framsóknarflokksins um að skuldir hefðu hækkað á þessu kjörtímabili. Bíddu, förum aðeins yfir hvernig það er til komið.

Þegar þessi ríkisstjórn tók við var fjárlagagatið og fjárlagahallinn 14,6% af landsframleiðslu. Þetta er fordæmalaus staða í íslensku samfélagi og ég vil meina fordæmalaus staða í vestrænu ríki. Á þessu hefur ríkisstjórnin þurft að vinna og á þessu ári höfum við náð þeim árangri að vera komin niður í 0,2% af landsframleiðslu. Þetta hefur verið verkefni núverandi ríkisstjórnar. Menn spyrja: Hvernig ætlið þið að fjölga störfum? Hvernig ætlið þið að styrkja fyrirtækin í landinu? — Með því að loka fjárlagagatinu. Það er hjartað í okkar efnahagsstefnu, án þess lyftum við ekki höftum, án þess verður ekki vöxtur í samfélagi okkar. Það er þess vegna sem ríkisstjórnin hefur tekið sársaukafullar ákvarðanir um niðurskurð og oft og tíðum erfiðar ákvarðanir um hækkanir á sköttum. Það er út af þessu verkefni. Þetta er hjartað og kjarninn í öllu og það mikilvægasta sem þessi ríkisstjórn hefur gert. Við höfum náð að stöðva fordæmalausa skuldasöfnun sem hófst áður en þessi ríkisstjórn tók við.

Frú forseti. Það kom líka fram í máli hv. þingmanns og formanns Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, að fölsuð fjárlög væru hér ítrekað á ferð. Það er hugsanlega rétt. Fjárlögin fyrir árið 2012 voru fölsuð vegna þess að við skiluðum betri árangri en við var að búast í það heila. Ef menn fara yfir þetta af sanngirni sjá þeir það, þeir sjá sannleikann í því efni.

Þessi ríkisstjórn hefur lagt sig alla fram þetta kjörtímabil við að vinna á því fordæmalausa ástandi sem skapaðist hér eftir bóluhagkerfi Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Það getur vel verið að við getum deilt um einstaka leiðir í því efni en heildarárangurinn lætur ekki að sér hæða vegna þess að hann er raunverulegur. Ég hef farið yfir hann hér hvað varðar ríkisfjármálin.

Við höfum lagt í stórátök til þess að fjölga störfum á sviði ferðaþjónustu, menn eru fljótir að gleyma því. Við höfðum samhliða því ráðist í hörkuuppbyggingu á ferðamannastöðum til að geta tekið á móti ferðamönnum sem koma í gegnum þessa stóru, nýju, vaxandi undirstöðuatvinnugrein. Bara svo eitt dæmi sé nefnt. Við höfum líka komið auðlindum okkar í var með ýmsum lagabreytingum. Rammaáætlun lauk á þessu kjörtímabili o.s.frv.

Frú forseti. Ég gæti haldið hér lengi áfram og talið upp hvað núverandi ríkisstjórn hefur gert, en einu get ég lofað og eitt get ég sagt á þessum tímapunkti: Við höfum lagt okkur öll fram og árangurinn er sá að við erum farin að hækka í lánshæfismati, við erum búin að loka hér fordæmalausu fjárlagagati, við erum búin að leggja undirstöðu að framtíð sem við getum byggt á.