141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[12:18]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Það er mikilvægt að halda því til haga að vantraustið er til komið vegna þess að ríkisstjórnin er að stíga slíkt óheillaskref að það má ekki gefa henni færi á því án kröftugrar viðspyrnu. Hún ætlar sér að hunsa þjóðaratkvæðagreiðsluna undir forustu allra formanna á þinginu.

Ábyrgð forseta Alþingis er líka mikil, forseti hefur ítrekað beinlínis staðið í vegi fyrir því að stjórnarskráin komist á dagskrá. Ég lýsi því vantrausti á forseta Alþingis, á formann Samfylkingarinnar, Árna Pál Árnason, og á Alþingi eins og það leggur sig fyrir að hafa ekki dug í sér til að virða þjóðarvilja sem það sjálft kallaði eftir með þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012.

Þetta er fyrsta stjórnarskráin okkar þar sem okkur öllum var boðið að taka þátt. Þetta ferli hefur fengið ítarlega umfjöllun og við gagnrýni var brugðist í þeirri útgáfu sem nú liggur fyrir á þinginu og verið er að setja í tætara gleymskunnar. Svona tækifæri mun ekki bjóðast aftur nema fólk skilji að þessi svik fjórflokksins eru síendurtekið stef sem mun aldrei breytast nema með samstilltu átaki til að taka gerræðisleg völdin af valdhöfum. Ég hélt að það væri hægt með þessari nýju stjórnarskrá að stíga hænufet í átt að þeim stjórnarháttum sem þessi nýja öld kallar eftir. Allt það sem átti að ráða bót á með nýrri stjórnarskrá, persónukjör, auðlindir til þjóðar, nýtt kosningakerfi, upplýsingaréttur 21. aldar, réttur almennings til að leggja fram frumvörp, kalla til þjóðaratkvæðagreiðslna, lýðræðislegar breytingar á stjórnarskrá, allt þetta mun nú hverfa vegna þess að meiri hluti þingsins hefur ekki dug til að láta stjórnarskrána í lýðræðislegt ferli og gefa okkur kost á að greiða atkvæði um málið.

Gleymum því ekki að það verður aldrei hægt að semja við Sjálfstæðisflokkinn um málið. Þar á bæ finnst valdhöfum að þjóðin eigi ekki að skrifa nýja stjórnarskrá heldur þeir og þeirra sérfræðingar.

Valdhafar Framsóknarflokksins eru sama sinnis, þeir vilja krukka í málið að eigin geðþótta.

En verst finnst mér að sjá kempurnar sem hafa staðið með nýrri stjórnarskrá innan stjórnarflokkanna falla í duftið og lúta vilja foringja sinna.

Gleymum svo ekki foringja Bjartrar framtíðar sem finnst óréttlátt gagnvart þeim þingmönnum sem verða nýir á næsta þingi að binda hendur þeirra með þessu plaggi, foringja sem lofar, samkvæmt öruggum heimildum, að verja ríkisstjórnina vantrausti ef tillaga hans um tárvota hvarma á 70 ára afmæli lýðveldisins og þjóðaratkvæði um nýja stjórnarskrá 2014 verður hluti af hrossakaupasamkomulagi og sáttaplaggi foringja stjórnmálaflokkanna.

Stór spurning sem vert er að huga að er: Hvaða stjórnarskrá verður það ef af þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu verður? Ekkert í þeirri þingsályktunartillögu sem liggur fyrir á þinginu eða frumvarpinu tryggir að næsta þing verði að virða þjóðaratkvæðagreiðsluna frá 20. október 2012. Þetta ferli er skammarlegt og langt í frá raunsætt. Það er bara til eitt hugtak yfir það: Alger uppgjöf. (Gripið fram í.) Hvers vegna er það svo þegar við fáum loksins stjórnarskrána inn í þingið fullbúna og búið að koma til móts við gagnrýni fræðimanna? Því ber auðvitað að halda til haga að í ferlinu höfðu allir þeir sem gagnrýndu það tækifæri til að taka þátt. Hvers vegna getum við ekki staðið í lappirnar og afgreitt málið? Er það vegna þess að við óttumst að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn taki þingið í gíslingu? Ef svo er, eins og hefur reyndar gerst áður með stjórnarskrárbreytingar, er ljóst að við verðum að beita 71. gr. þingskapa. Það er bara þannig og það er engin skömm að því þegar reynt er að taka fram fyrir hendurnar á þinginu sem er að gera það sem því ber að gera, að virða þjóðaratkvæðagreiðslu sem við sjálf kölluðum eftir og boðuðum til. Það er bara svo einfalt. Ég ætla ekki að trúa því að Alþingi ætli að hunsa vilja þjóðaratkvæðagreiðslu og það á alveg jafnt við minni hlutann og meiri hlutann, það er bara þannig.

Það var boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu og okkur ber að virða niðurstöðuna. Við báðum um að fá þessar tillögur frá stjórnlagaráði. Við báðum um að unnið yrði upp úr því sem kom út úr þjóðfundinum og við verðum að virða þetta. Enginn þingmaður og ekki nokkur maður er með nákvæmlega þá stjórnarskrá sem hann vill. Allir vilja breyta einhverjum atriðum í henni en þetta er niðurstaðan sem stjórnlagaráð náði í sameiningu, fólkið sem við báðum um að setja saman það plagg sem liggur nú fyrir þinginu. Það er búið að laga alla tæknilega vankanta, það eina sem þarf er að þingið virði þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Ef við getum ekki komið þessu í gegnum þingið verður að leysa þetta þing upp. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)