141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[12:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég verð að segja að mér finnst ákaflega dapurlegt að það skuli vera hlutskipti hv. þm. Þórs Saaris, sem hér hefur verið kappsfyllstur stríðsmanna fyrir nýrri stjórnarskrá, að bera upp vantraust gegn ríkisstjórn sem ég held að sé óhætt að segja að hafi verið dyggasti stuðningsmaður hans og Hreyfingarinnar í því að ná stjórnarskránni í gegn. Við höfum gert allt það sem hægt er til þess. Andspænis því sem ekki er hægt að kalla annað en grímulaust ofbeldi, af hálfu Sjálfstæðisflokksins fyrst og fremst, hafa menn íhugað að fara þá leið að reyna að koma þessu máli áfram til að vernda þá vinnu sem unnin hefur verið yfir á annað kjörtímabil til að hægt sé að halda áfram að reyna að ná fram þeirri stjórnarskrá sem fólkið svo sannarlega á skilið. Ég tel hins vegar þetta feigðarflan hv. þm. Þórs Saaris vísasta veginn til þess að koma í veg fyrir að um síðir munum við sjá nýja stjórnarskrá verða til á þessum grunni.

Við vitum alveg hvað er að gerast. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem, eins og alltaf áður þegar stjórnarskrá hefur komið til umræðu í þessum sölum, berst með kjafti og klóm til þess að verja hagsmuni stórútgerðarinnar til þess að koma í veg fyrir að í stjórnarskrá verði sett ákvæði um þjóðareign á auðlindunum. (Gripið fram í.) Það gerir það að verkum að þingið er í gíslingu málþófsmanna. Það verður þó að segjast hv. þingmönnum Framsóknarflokksins til hróss að þeir hafa eigi að síður stigið skref til sátta um þetta atriði sem mér finnst það mikilvægasta í stjórnarskránni, þ.e. að nýju auðlindaákvæði. Það er það sem mér finnst í þessu máli skipta öllu að við náum einhvers konar samstöðu um.

Frú forseti. Jafnvel þó að mér þyki hv. þm. Þór Saari hafa fallið í díkin verð ég að segja að ömurlegast af öllu finnst mér eigi að síður vera virkur stuðningur formanna tveggja stjórnmálaflokka við þá vantrauststillögu sem Þór Saari hefur flutt. Það er líklega það sérkennilegasta sem ég hef nokkru sinni á ævi minni, sem ég hef eytt að stórum hluta í sölum Alþingis, orðið vitni að. Og nú tek ég alveg skýrt fram að ég geri í sjálfu sér ekki nokkrar athugasemdir við það að menn leggi fram vantraust á ríkisstjórn og heyi málefnalegu baráttu á grundvelli meintra ágalla ríkisstjórnarinnar og eigin stefnu. Það er hins vegar ekki það sem þessir tveir hv. herramenn gera.

Það sem er sérkennilegt við þá er að þeir breiða yfir nafn og númer, þeir þora ekki að koma hreint til dyranna og þeir leggja ekki fram vantraust í eigin nafni heldur kjósa að fela sig á bak við hið breiða bak hv. þm. Þórs Saaris. Mér finnst það nokkuð broslegt að þessir flokkar sem ganga hér reigðir um sali og telja að þeir séu um það bil að erfa landið og vinna kosningar byrja þá sigurför sína undir forustu hv. þm. Þórs Saaris.

Frú forseti. Kannski hefði ég ekki átt að nota orðið broslegt heldur grátbroslegt í ljósi þess að enginn þingmaður hefur með jafnvafningalausum hætti látið klóru sína rakast um bak og herðablöð þessara tveggja hv. þingmanna og hv. þm. Þór Saari.

Af því að fyrir framan mig situr formaður þingflokks sjálfstæðismanna, hv. þm. Illugi Gunnarsson, verð ég að segja að dapurlegast er hlutskipti Sjálfstæðisflokksins. Eru menn búnir að gleyma landsdómsmálinu? Ég er ekki búinn að gleyma því. Það var mér þungbært og erfitt og er það enn. Ég sá formann Sjálfstæðisflokksins vikna í landsfundarræðu sinni á síðasta ári þegar hann ræddi herförina, réttilega svo nefnda, sem gerð var á hendur föllnum forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins. Hver valdi þeim ágæta manni hæðilegustu pólitísku köpuryrðin sem íslensk tunga á að geyma? Það var hv. þm. Þór Saari og það er ekki lengra síðan en í gær sem sá ágæti hv. þingmaður fór nöturlegum orðum um fallinn foringja Sjálfstæðisflokksins.

Í dag, sólarhring síðar, gerist það að núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins bregður á það prinsipplausa ráð að gerast málaliði hv. þm. Þórs Saaris í herleiðangri hans á hendur ríkisstjórninni. Það eru ill örlög. Menn með réttlæti og sómatilfinningu gráta ekki örlög fórnarlamba slíkra manna einn daginn og slást svo í för með þeim sem málaliðar í næsta stríði. Mér finnst ótrúlegt að horfa upp á þetta af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst ótrúlegt prinsippleysi af forustu þeirra að þora ekki að heyja þessa vantraustsumræðu á eigin grundvelli, á grundvelli eigin stefnu, heldur fela sig á bak við hv. þm. Þór Saari.

Þessi hentistefna er svo undirstrikuð af því að andlag vantrauststillögunnar er sú skoðun hv. þm. Þórs Saaris að stjórnarliðar gangi ekki nógu hart fram í að keyra í gegn frumvarp að nýrri stjórnarskrá sem Sjálfstæðisflokkurinn, nota bene, er harðastur allra á móti. Það er það skrýtnasta við þessa tragikómedíu. Í reynd eru þeir að lýsa vantrausti á ríkisstjórn fyrir að brjóta ekki með valdi á bak aftur þeirra eigið málþóf og taka með ofbeldi gegnum þingið mál sem þeir eru á móti. Ef þetta er ekki Íslandsmet í prinsippleysi hlýtur það að minnsta kosti að vera Reykjavíkurmet.

Frú forseti. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa í þessum umræðum ausið svartagalli úr öllum sínum keröldum yfir þjóðina og sjá ekki neitt jákvætt sem þessi ríkisstjórn hefur gert. Það verður þó varla af henni tekið að hún hefur mokað mikið úr flórnum sem Sjálfstæðisflokkurinn skildi eftir sig þegar 18 ára stjórnartíð hans lauk með afleiðingum sem munu standa hátt í Íslandssögunni næstu þúsund árin. Það sem er hlálegast við það allt saman er að enginn hefur lýst því jafnskilmerkilega og einmitt sá maður sem þeir lúta í dag, hinn nýi leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Þór Saari, sem aftur og aftur hefur bent á það hversu algjörlega skýrt það kemur fram í rannsóknarskýrslu Alþingis að fyrst og fremst ákvarðanir Sjálfstæðisflokksins settu af stað atburðarás sem segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að ekki hafi verið hægt vinda ofan af þegar kom fram um mitt ár 2006. Þessum manni, sem er búinn að fleiðra þá upp um herðablöð, niðurlægja, skamma og lítillækka, lúta þeir nú í dag. Þeir eru svo deigir að þeir hafa ekki einu sinni kjark til að koma fram undir eigin nafni og númeri til þess að heyja sitt stríð um vantraust á ríkisstjórnina. Það eru kjarklitlir stjórnmálamenn.