141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[12:53]
Horfa

Róbert Marshall (U):

Virðulegi forseti. Í styrjöldum missa menn oft tengslin við raunveruleikann. Að vissu leyti birtist okkur í þessu máli það sem birtist í Víetnamstríðinu þegar höfð voru eftir ónefndum ofursta fleyg og alræmd ummæli: Til þess að bjarga þorpinu urðum við að eyðileggja það. Það er í raun það sem er gerast hjá hv. þm. Þór Saari, til að bjarga þorpinu er hann að leggja til eyðileggingu þess. (ÞSa: Það er það sem þið eruð að gera.) Það er sorglegt að verða vitni að því þegar menn lifa sjálfa sig í pólitík og verða að því sem þeir lögðu upp með að berjast gegn.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir er ekki hluti af þeim nýju stjórnmálum sem innleiða þarf á Alþingi og á Íslandi í dag. Það er gamaldags pólitík sem felur í sér að ef mín leið er ekki farin, þó að hér sé verið að leggja til aðra leið að sama markmiði, sé ekki til neins unnið, þá skuli menn frekar slíta þingi og fara heim, út af því að mín leið er ekki farin. Með tillögu hv. formanna stjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar er verið að bjarga þessu máli, tryggja að hægt sé að vinna það áfram þannig að þjóðin fái nýja stjórnarskrá á næsta ári, setji sér sjálf nýja stjórnarskrá á næsta ári.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég fylltist mikilli depurð þegar ég hlustaði á ræðu hv. þm. Þórs Saaris fyrr í dag vegna þess að hún er dæmi um það hvernig við í Bjartri framtíð viljum ekki að stjórnmálin séu. Við leggjum mikla áherslu á að fjalla um skoðanir annarra af virðingu og kurteisi og það sem er mikilvægt; að gera öðrum ekki upp skoðanir, að láta ekki að því liggja að annarlegar hvatir liggi að baki skoðunum manna í stjórnmálum.

Hér er um að ræða að komast að niðurstöðu um grunnplagg samfélagsins og það er eitthvað sem við hljótum öll að hafa jafnréttháar skoðanir á. Við þingmenn Bjartrar framtíðar munum ekki samþykkja þá tillögu sem hér liggur fyrir frá hv. þm. Þór Saari. Það er vegna þess að hér er búið að ákveða að fara þá leið sem við lögðum til fyrir nokkrum vikum. Þá var sú leið reyndar kölluð „klækjapólitík dauðans“ af hæstv. utanríkisráðherra, hann hefur nú séð ljósið í þessu. Með þeirri leið er verið að tryggja að hægt sé að halda áfram með málið.

Ég tók þátt í því að kjósa um stjórnarskrána ásamt almenningi á Íslandi. Ég kaus og vildi að drögin frá stjórnlagaráði yrðu til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Í þeim kosningum var ekkert smátt letur um það að með því gerði ég hv. þm. Þór Saari að leiðtoga lífs míns í því máli, að hann yrði þá að talsmanni mínum um það hvernig leiða ætti málið til lykta, ekkert slíkt. Hér er verið að leggja til að hægt verði að halda áfram með málið á næsta kjörtímabili, vinna það betur, aflétta tímapressunni og tryggja að markmiðið, sem við erum þó öll sammála um, að minnsta kosti ég og hv. þm. Þór Saari, náist.

Þar fyrir utan eru sex vikur í kosningar og þess vegna er sú tillaga sem hér liggur fyrir, um þingrof og vantraust á ríkisstjórnina, fullkomlega merkingarlaus. Hún hefur enga þýðingu, hún breytir engu. Og þess vegna er svo undarlegt að verða vitni að því, t.d. hjá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, að þeir skuli ætla að styðja svona tillögu. Sama hvaðan gott kemur, heyrist hér á göngunum. Það er búið að boða til kosninga, það liggur fyrir. Þess vegna er sú umræða sem hér hefur farið fram algjör tímaeyðsla, algert virðingarleysi fyrir því starfi sem hér þarf að vinna og hún er algjörlega merkingarlaus.