141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[13:05]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Því hefur verið haldið fram í þessari umræðu að stjórnarskrármálið hafi stöðvast í þinginu vegna þess að beitt hafi verið einhvers konar málþófstaktík. (Gripið fram í: Þú lofaðir málþófi.)

Vandinn er auðvitað fyrst og síðast sá að þau drög að stjórnarskrá sem komu til þingsins voru um margt gölluð og jafnvel meingölluð. Yfirgnæfandi meiri hluti þeirra fræðimanna sem hafa fjallað um það mál hafa gert mjög alvarlegar athugasemdir við allan málatilbúnaðinn. Þær athugasemdir hafa aftur og aftur af hálfu stjórnarsinna hér í salnum verið afgreiddar með mjög ódýrum hætti, ekki með því að svara málefnalega heldur einmitt eins og formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, vakti athygli á, með köpuryrðum og glannalegum yfirlýsingum. Það er vandinn í stjórnarskrármálinu.

Virðulegi forseti. Ég mun greiða atkvæði með því að ríkisstjórnin fari frá, ekki á þeim forsendum sem hv. þm. Þór Saari gefur sér í tillögu sinni. Ástæður mínar eru skýrar. Núverandi ríkisstjórn hefur mistekist það verkefni sem henni var falið að vinna eftir kosningarnar árið 2009. Vissulega var erfitt verkefni fyrir höndum. Hin alþjóðlega fjármálakrísa hafði leikið Ísland grátt og ríkisstjórnarinnar beið það að bregðast við, rétt eins og hefur komið í ljós hjá fjölmörgum löndum í Evrópu, fjölmörgum ríkisstjórnum í Evrópu sem þurfa að standa frammi fyrir gríðarlega erfiðum verkefnum í kjölfar þeirra hörmunga sem hafa gengið yfir fjármálakerfi Vesturlanda.

Virðulegi forseti. Hver var staðan þá hér? Áður en áfallið reið yfir var ríkissjóður allt að því skuldlaus og það er ólíkt því sem var í flestum öðrum löndum Evrópu. En það sem meira var, og það var það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom auga á þegar hann kom hingað, sóknarfærin voru mikil og fjölbreytt fyrir íslenskt samfélag og fyrir íslenskt hagkerfi. Þess vegna var það mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hér ætti að geta orðið umtalsverður hagvöxtur og hann ætti að geta komið fljótt inn og við ættum að vera fljót að ráða bug á atvinnuleysinu og ná tökum á ríkissjóði. Þetta var ekki bara mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og ríkisstjórnin sáu þá mynd sem blasti við, að við Íslendingar áttum öll tækifæri til að vinna okkur hratt úr þeim erfiðleikum.

Gert var svokallað stöðugleikasamkomulag á milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins annars vegar og ríkisstjórnarinnar hins vegar. Og hvernig fór með það, virðulegi forseti? Hvar endaði það? Með svikum ríkisstjórnarinnar þar sem hún stóð ekki við það sem hún hafði sagst ætla að gera. Allir þekkja yfirlýsingar forseta ASÍ í kjölfar þess máls og annarra forustumanna Samtaka atvinnulífsins.

Síðan voru gerðir kjarasamningar þar sem samið var um töluvert miklar launahækkanir fyrir íslenska launamenn. Og á grundvelli hvers, virðulegi forseti? Á grundvelli þess að fram undan væri myndarlegur hagvöxtur, drifinn áfram af fjárfestingum og ríkisstjórnin kom að því borði með yfirlýsingum. Hvernig fór það, virðulegi forseti? Það sem að ríkisstjórninni sneri, það brást. Og enn og aftur komu talsmenn atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar fram og sögðu: Það er ekki hægt að eiga samskipti við þessa ríkisstjórn, við verðum að bíða nýrrar stjórnar. Það var dómur Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Ekki er að furða að margir þingmenn í þessum sal beri ekki traust til ríkisstjórnar og vilji að hún fari sem fyrst.

Virðulegi forseti. Ekki er langt síðan helstu forustumenn núverandi ríkisstjórnar gengu hér um sali og mikluðu sig af því að hagvöxtur ársins 2012 væri um og yfir 3%, sem hefði auðvitað verið myndarlegur hagvöxtur, og sögðu: Sjáið hvernig við höfum haldið á málum. (Utanrrh.: Þið sögðuð ekkert þá.) Þá vöruðum við við því, virðulegi forseti, að holt væri undir þessu vegna þess að það vantaði alltaf eitt inn í, þ.e. fjárfestingar atvinnulífsins.

Virðulegi forseti. Forustumenn ríkisstjórnarinnar töldu sig hafa tekið próf og fengið 9 á prófinu. En svo er niðurstaðan komin. Hagvöxtur ársins 2012 var einungis helmingur af því sem ætlað var þannig að ríkisstjórnin fékk einungis helminginn og er þess vegna fallin á prófinu. Hún er fallin á því prófi sem hún sjálf setti upp. Hún stóð ekki við þær yfirlýsingar sem hún gaf Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins, hún stóð ekki við þau fyrirheit sem hún gaf þjóðinni. Í hverju hefur vandinn falist? Í stað þess að leita sátta, í stað þess að mynda pólitískan stöðugleika hefur allt verið gert til að rjúfa sáttina í landinu, gera atvinnulífinu erfitt fyrir með að fjárfesta vegna þess að pólitísk óvissa hefur farið vaxandi á Íslandi.

Virðulegi forseti. Fyrir skömmu síðan var haldinn fundur Samtaka atvinnulífsins. Þar lýstu menn þeim vandamálum sem þeir stæðu frammi fyrir þegar kæmi að fjárfestingum á Íslandi, og það var tvennt. Það voru gjaldeyrishöftin og síðan, virðulegi forseti, og það er ótrúlegt á það að hlýða, pólitísk óvissa. 1,6% hagvöxtur á síðasta ári eru gríðarleg vonbrigði. Það hljóta að vera öllum mikil vonbrigði hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, því að með því var staðfest að ekki er inneign fyrir þeim kauphækkunum sem var samið um og því er verðbólgan á uppleið. Það er hún sem étur kaupmáttinn og það er hún sem hækkar lán heimilanna. Þarna eru á ferðinni alvarleg hagstjórnarmistök.

Árásir á sjávarútveginn. Á hverju einasta ári hefur komið hingað inn frumvarp af hálfu ríkisstjórnarinnar sem kollvarpar þeirri undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Óvissa er í skattamálum þjóðarinnar, óvissa um hvort breyta eigi skattkerfinu eða hækka skattana, það dregur úr fjárfestingum, óvissa er um skattumhverfi eins helsta vaxtarbrodds íslensks atvinnulífs, ferðaþjónustunnar, óvissa um skattumhverfi stóriðjunnar, óvissa, óvissa og alltaf óvissa. Það gerir að verkum að við náum ekki upp hagvextinum. Og þegar það gerist rýrna kjör heimilanna og þá dregur líka úr möguleikum ríkisins til að veita þjónustu sem er svo mikilvæg.

Ég hlýddi á hæstv. velferðarráðherra fara með lítinn óskalista um það sem hann svo gjarnan vildi gera og ég held að við öll viljum gjarnan gera. En það verður ekki hægt, virðulegi forseti, nema takist að auka verðmætasköpun í landinu, en meðan núverandi ríkisstjórn situr mun það ekki gerast.

Virðulegi forseti. Þess vegna er ástæða til að greiða atkvæði með því að ríkisstjórnin fari frá, hún hefði betur aldrei komið og ætti fyrir löngu að vera farin.