141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[13:29]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Þór Saari leggur fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina þegar innan við vika er eftir af starfstíma þingsins og stutt eftir af þessu kjörtímabili. Ég velti fyrir mér hvað hafi haft þau áhrif á ákafan stuðningsmann um samningu nýrrar stjórnarskrár, sem hv. þm. Þór Saari hefur verið, að hann skuli nú stíga það skref sem gerir það algjörlega ómögulegt að klára málið eða setja það í farveg inn á næsta kjörtímabil, mál sem hann hefur stutt svo dyggilega fram til þessa. Hvers vegna stillir hann sér upp við hlið sjálfstæðismanna sem hafa alltaf verið á móti því að þjóðin fái nýja stjórnarskrá, hafa gert lítið úr ferli málsins og þeirri miklu og góðu vinnu sem stjórnlagaráð, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og margir fleiri hafa lagt til svo verkið yrði sem best úr garði gert?

Virðulegur forseti. Þetta er mér hulin ráðgáta, en ljóst er hins vegar að sjálfstæðismenn fagna og vona að niðurstaðan verði sú að þjóðin fái ekki nýja stjórnarskrá með margvíslegum lýðræðisumbótum og ákvæðum sem tryggja meðal annars auðlindirnar í þjóðareign. Ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, verður minnst sem ríkisstjórnarinnar sem tók við stjórn landsins við fordæmalausar aðstæður eftir stórkostleg hagstjórnarmistök sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Núverandi ríkisstjórn er sú sem endurreisti efnahag og samfélag okkar eftir hrun. Vorið 2009 veitti meiri hluti kjósenda jafnaðarmönnum og félagshyggjufólki skýrt umboð til að glíma við efnahagserfiðleika og skapa jarðveg fyrir norrænt velferðarsamfélag ásamt því að endurreisa traust í íslensku samfélagi og orðspori Íslands á alþjóðavettvangi. Verkin hafa verið krefjandi en að sama skapi hefur verið gefandi að sjá umtalsverðan árangur af þeim. Við hrunið komu veikleikar ríkisfjármálanna í ljós. Við höfum lært af biturri reynslu að slæm stjórn ríkisfjármála og peningamála hefur langvinn áhrif á efnahagsmálin, og velferðarþjónustu um leið, til hins verra.

Ástæða er til að gleðjast yfir árangri ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sem náðst hefur, m.a. með styrkri stjórn og stefnu í ríkisfjármálum, frekar en að ræða hér um vantraust. Um árangurinn vitna tölulegar staðreyndir og umsagnir innlendra og erlendra sérfræðinga. Við höfum tekið á málum með skýrri forgangsröðun í þágu velferðar. Við höfum unnið á stórkostlegum vanda heimilanna eftir hrun, bæði með almennum og sértækum aðgerðum, farið eftir greiningum um mesta vandann og stutt barnafjölskyldur og þá tekjulægri með barnabótum og vaxtabótum til að mæta greiðsluvanda. Við höfum séð til þess að auðlindir þjóðarinnar skili arði til þjóðarbúsins og að byrðum sé skipt með sanngjarnari hætti. Við höfum styrkt rannsókna- og tæknisjóði og hlúð að vaxtarsprotum í atvinnulífinu og nýsköpun. Stjórnendur og starfsmenn innan ríkisstofnana hafa unnið þrekvirki að hagræðingu við að halda góðri þjónustu við erfiðar aðstæður. Við höfum komið þjóðarbúskapnum á þann stað að mögulegt er að skipuleggja framtíðina á traustum grunni, taka stefnuna fram á við og upp og skapa hér réttlátara þjóðfélag þar sem almannahagur er tekinn fram yfir sérhagsmuni og langtímasjónarmið fram yfir skyndilausnir.

Það er mögulegt vegna starfa ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sem rétt hefur við efnahag og samfélag eftir afleita hagstjórn þeirra stjórnmálaflokka sem nú fagna vantrauststillögu frá hv. þm. Þór Saari.