141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[13:41]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum vantrauststillögu hv. þm. Þórs Saaris og er þá rétt að ræða stormasamt kjörtímabil, staldra við og líta upp úr annríki undanfarinna ára. Þegar ég lít yfir farinn veg og verk þessarar ríkisstjórnar er ég stolt af Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og þjóðinni sem þrátt fyrir mótlæti og erfiðleika er að rétta úr kútnum, hægt en örugglega. Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar axlaði fordæmalaust verkefni, um það verður ekki deilt. 18 ára óstjórn Sjálfstæðisflokks, óhófið og græðgin færði okkur hagvísa sem allir bentu beint fram af hengifluginu. Ríkisfjármálin voru í kaldakoli, atvinnuleysið ógnvænlegt og þjóðin öll að sökkva í skuldir, heimilin, fyrirtækin og bankarnir, sveitarfélögin og ríkið. Allt var það í boði auðvaldsins sem allt í einu var orð sem aftur mátti nefna. Allt var breytt og ekkert varð eins og áður.

Virðulegur forseti. Öllu þessu hefur núverandi ríkisstjórn snúið við og meira til, ekki svo að skilja að allt sé leyst og öllum verkefnum lokið, fjarri því, en landið rís og það sér til sólar. Stærstu og mikilvægustu verkefnin hafa verið fyrir heimilin og fyrir komandi kynslóðir. Þau hafa snúist um varðstöðu um velferðarkerfið, að hlífa menntakerfi og heilbrigðiskerfi. Þau hafa snúist um að verja börn, námsmenn, fólk í umönnunarstörfum, fólk við kennslu, fólk sem sinnir öldruðum og sjúkum og það sem það þarf til að sinna hlutverkum sínum. Þessi forgangsröðun sést til dæmis á því að árin fyrir hrun, allt hið meinta góðæristímabil, lækkuðu framlög til tækjakaupa á Landspítala ár frá ári en hækkuðu á síðustu fjárlögum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Kannski hefði verið freistandi fyrir einhvern að grípa til einkavæðingar og gjaldtöku í heilbrigðis- og menntakerfi og þá freistingu hefði hægri ríkisstjórn tæpast staðist.

Skattkerfinu hefur verið breytt þannig að þeir sem úr minnstu hafa að spila borga lægri gjöld en áður, en þeir ríkari meira og þannig á það að vera. Jöfnuður hefur verið hafður að leiðarljósi og aukinn til muna, réttlátara skattkerfi er aðgerð fyrir heimilin í landinu.

Atvinna fer vaxandi. 110%-leiðin hefur gagnast ýmsum og vaxtabætur og viðbótarvaxtabætur hafa nýst mörgum sem glíma við miklar skuldir og eiga við greiðsluvanda að etja. Lánsveðshópurinn og þeir sem tóku lán á árunum fyrir hrun og urðu fyrir þyngstu höggi þurfa frekari aðgerðir og að þeim er unnið. Við lausnir þarf sanngirni, kjark og samstillt átak en ekki kanínur upp úr pípuhatti peningamanna.

Ríkisstjórnin, sem sumir kalla verklausa, hefur látið hendur standa fram úr ermum allt þetta kjörtímabil. Þar hafa mörg verkefni verið unnin og mikilvæg skref stigin í fjölmörgum málaflokkum. Þessi ríkisstjórn hefur haft kjark til verka og hugsað til langs tíma þrátt fyrir umfangsmikil verkefni í núinu. Stór skref hafa verið stigin í þágu nýrrar stjórnarskrár og þar er ákvæði um þjóðareign á auðlindum lykilatriði. Andstaðan við það ákvæði er andstaða við hagsmuni þjóðarinnar í heild, andstaða við hagsmuni komandi kynslóða og gamalkunnug varðstaða um sérhagsmuni.

Margt er eftir enn og því þarf að sinna. Gildin sem leiddu okkur í hrunið voru græðgi, hraði, skammsýni og áhættusækni. Af því þurfum við að læra. Nægjusemi, yfirvegun, framsýni og varúð þurfa að taka við, allt þættir sem einkenna hugsjónina um sjálfbæra þróun. Stórar skuldadrifnar lausnir leysa engan vanda. Blind hagvaxtarhyggja gerir það ekki heldur. Við erum þjóð sem hefur stundum gengið of hart á auðlindir sínar og þurfum að gæta að sjálfbærri nýtingu og auka hlutdeild hugvits og sköpunar í verðmætasköpun og velsæld samfélagsins. Ríkisstjórnin sýndi með kortlagningu á hagrænum áhrifum skapandi greina að þær væru ekki bara „eitthvað annað“ eins og stóriðjufíklarnir kölluðu þetta stundum í háðungartóni, heldur að hér er ein af undirstöðum hagsældar og velferðar og það þrátt fyrir áralanga vanrækslu fyrri ríkisstjórna.

Nú eru sumir aftur farnir að tala um stórar lausnir og risaskref sem allt eiga að leysa og þá þurfum við að hafa varann á. Nú á aftur að ganga á náttúrugæðin, aftur að grípa í pilsfaldinn, aftur að leiða þjóðina í villur með gylliboðum og láta hana sjálfa borga allan reikninginn. Má ekki bjóða þér lægri skatta en líka meiri þjónustu? Viltu ekki fá hjá okkur betri lán og losna um leið við allar skuldir?

Höfum við heyrt eitthvað af þessu áður? Erum við ekki enn að borga reikninginn síðan síðast og eigum enn töluvert í land?

Virðulegur forseti. Aukinn sveigjanleiki í ríkisfjármálum nýtist heilbrigðiskerfinu og hann þarf að koma fram í kjörum aldraðra og öryrkja. Menntakerfið þarf að njóta góðs af, menningin þarf að blómstra og okkar góða velferðarkerfi að eflast á ný án einkavæðingar og án gjaldtöku sem mismunar fólki eftir efnahag.

Við sem höfum staðið vaktina í ríkisstjórn og á Alþingi erum í þjónustu við almenning. Við þurfum að hlusta og íhuga hvert skref á hverju sem gengur og þess vegna er líka mikilvægt að hér ráði áfram ferðinni heildarhagsmunir og almannahagur, sanngirni og réttlæti til framtíðar á meðan þjóðin öll og samfélagið er að jafna sig eftir efnahagshrun og þrengingar, eftir bóluhagkerfi og ójöfnuð liðinna ára. Það sem við þurfum síst á að halda er að hefja aftur til vegs og virðingar rányrkju og gagnrýnislaus peningasjónarmið. Nú er tími til að standa saman, þjóðin öll, um góðu gildin, þau sem raunverulega skipta máli. Þess vegna þurfum við áfram vinstri stjórn þar sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur sterka rödd.

Ég hvet til þess að þingheimur felli vantrauststillögu Þórs Saaris. (ÁI: Heyr, heyr.)