141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[13:51]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hvort á nú einn þingmaður að hlæja eða gráta þegar hann horfir upp á nýjan leiðtoga stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Þór Saari, hafa formenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks til fylgdar við sig í fáránlegustu vantrauststillögu Íslandssögunnar? Það var kannski ástæða til að láta reyna á stuðning við ríkisstjórnina þegar óvissa var uppi um stöðu stjórnarskrármálsins fyrir nokkru. Þá kaus hv. þingmaður hins vegar að draga tillögu sína til baka. Nú hefur formaður Samfylkingarinnar haft frumkvæði að því að koma stjórnarskrármálinu í farveg og tekist samstaða með Bjartri framtíð, Samfylkingunni og Vinstri grænum um að bjóða stjórnarandstöðunni sáttarhönd í því hvernig með málið skuli áfram farið. Þegar málið er nú komið í farveg kýs hv. þingmaður að flytja vantrauststillöguna.

Og um hvað flytur hv. þingmaður vantrauststillöguna? Hann flytur vantrauststillögu á ríkisstjórn Íslands. Stjórnarskrármálið er hins vegar flutt á Alþingi. Það er í meðförum á Alþingi og ef það gefur tilefni til vantrausts á einhvern gefur það tilefni til vantrausts á Alþingi. Hvert er þá ráð hv. þingmanns þegar andstaða Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins er jafnmikil og raun ber vitni? Ráð hv. þingmanns er að það eigi að leiða Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn til valda í ríkisstjórn Íslands. Og hvað gera Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn þegar þingmaður kvartar yfir því að aðrir þingmenn séu ekki tilbúnir að beita þessa stjórnmálaflokka ofbeldi sem ekki hefur verið notað síðan 1949? Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn styðja auðvitað þennan hv. þingmann og leggja meira að segja til að Hreyfingin taki sæti í ríkisstjórn því að það er, eftir því sem mér skilst, hluti af þeirri tillögu sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn styðja hér í dag.

Um hvað er tillagan enn fremur? Hún er um það að efna til kosninga. En kosningar eru þegar hafnar. Þessi málatilbúnaður allur er með slíkum ólíkindum að það hlýtur að verða öllu fullorðnu fólki til nokkurrar umhugsunar að 63 þjóðkjörnir fulltrúar þurfi að eyða tíma sínum í að ræða þetta mál. (Gripið fram í: … þjóðaratkvæðagreiðsluna?) Enn sérkennilegra er að upplifa það hversu margir þjóðkjörnir fulltrúar ætla sér að styðja málatilbúnað sem er með þessum endemum. Auðvitað á ekki að lýsa vantrausti á þá ríkisstjórn sem hér hefur, ásamt íslensku þjóðinni, endurreist þetta samfélag frá hruni. Auðvitað eigum við að fagna þeim árangri sem náðst hefur, þeirri efnahagslegu uppbyggingu sem hafin er. Hér aukast tekjur þjóðarinnar, hér vex kaupmáttur fólks, hér dregur úr atvinnuleysi. Það mætti auðvitað gerast hraðar, en við skulum vara okkur á snákaolíusölumönnunum. Það geta allir boðið 1% meiri hagvöxt. Það verður nóg af því þegar menn bjóða valkostina á næstu vikum þar sem flokkar munu bjóða 20% lækkun skulda, 30%, 40% — og nú erum við jafnvel komin fram með stjórnmálaflokka sem bjóða fólki fartölvur ef bara þeir eru kosnir. Og fyrr en varir munum við eflaust sjá í stjórnmálaumræðunni loforð um að menn fái farsíma ef þeir kjósa einhverja tiltekna flokka eða ferðir til Kanaríeyja eða eitthvað þaðan af (Gripið fram í.) ábyrgðarlausara. (Gripið fram í.)

Þetta á ekki að taka tíma þingsins. Stjórnarandstöðunni hefur verið rétt sáttarhönd af stjórnarflokkunum og Bjartri framtíð. Við eigum að ná saman um breytingar á stjórnarskránni. Hafni stjórnarandstaðan þeirri sáttarhönd hlýtur málið að koma á dagskrá á ný. Í 13 ár hafa menn rætt það að íslenska þjóðin (Forseti hringir.) fái að lýsa eign sinni á auðlindum landsins. Hún hefur sjálf kveðið upp úr um það í þjóðaratkvæðagreiðslu og ég tel að meiri hlutinn hafi lýðræðislegt umboð til að ljúka þjóðareign á auðlindir með hvaða þeim ráðum sem tiltæk eru í þingsköpum.