141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[14:02]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Við höfum séð margt undarlegt á Alþingi Íslendinga undanfarna daga, mánuði og missiri. Ég held að þessi vantrauststillaga sé sennilega það furðulegasta og það fjarstæðukenndasta sem hér hefur verið borið á borð, eins og umræðan um hana hefur sýnt. Málflutningur stuðningsmanna tillögunnar hefur verið stórbrotinn hér í dag, algerlega.

Hv. þm. Þór Saari endurflytur afturkallaða tillögu sína um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar. Nú hefur að vísu tillagan tekið þeim breytingum að horfin eru út orðin „eigi síðar en 28. febrúar 2013“ enda er sá dagur liðinn og sömuleiðis að það eigi að kjósa 13. apríl vegna þess að tillagan er orðin enn fáránlegri en hún var þegar hún kom fram. Það er búið að ákveða kjördag, það er hafin utankjörstaðaatkvæðagreiðsla og örfáir dagar eftir af starfstíma Alþingis. Einhver stjórn þarf væntanlega að sitja í landinu fram að kosningum. Þetta er stórbrotið.

Í öðru lagi er hér lögð fram tillaga um vantraust á ríkisstjórnina. Vegna hvers? Vegna þess að frumvörp sem meiri hluti þingnefndar flytur fá ekki þann framgang í þinginu sem hv. þingmaður telur persónulega að þau eigi að fá, einn af 63, talandi um umboð annarra hér í dag. Af hverju er ekki flutt vantraust á þingnefndina eða á Alþingi sjálft? Af hverju á ríkisstjórn sem er ekki með þetta mál? Þetta er fáránleiki. Auðvitað ætti hv. þingmaður, og út á það hefur allur málflutningur hans gengið, að flytja hér vantrauststillögu á Sjálfstæðisflokkinn ef það væri tæknilega hægt. Þetta er auðvitað vantraust á Sjálfstæðisflokkinn vegna þess að það er hann sem kemur núna, 2013, eins og 2009 og 2007 í veg fyrir að við komumst lönd eða strönd í stjórnarskrármálinu. (JónG: Segðu nú satt frá.) Þetta er svona, við þekkjum þessa sögu sem höfum setið í stjórnarskrárnefndum og verið á Alþingi. Sjálfstæðisflokkurinn kemur alltaf úr kafinu í lokin og kemur í veg fyrir að við komumst lönd eða strönd með stjórnarskrána vegna þess að það á ekki að breyta henni nema eins og Sjálfstæðisflokkurinn vill hafa hana. (Gripið fram í.) Það er eitt hérna í þessu öllu saman, (Gripið fram í.) 100, 200, 300 ára gömlum átökum í vestrænum stjórnmálum, það er einkaeignarrétturinn sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um. En svo ber við að hv. þm. Þór Saari flytur ekki vantraust á Sjálfstæðisflokkinn, nei, hann er með Sjálfstæðisflokkinn með sér í þessu. Það er það stórkostlega.

Tillagan gengur út á tvennt, að lýsa vantrausti á ríkisstjórn og kjósa, sem hvort eð er er búið að ákveða. Það dásamlegasta er að síðan á að mynda ríkisstjórn allra flokka. Það á bara að mæla fyrir um það, hvað sem tautar og raular, að í næstu ríkisstjórn skulu sitja þingmenn allra stjórnmálaflokka, þar með talinn væntanlega hv. þm. Þór Saari sem hlýtur að hafa augastað á einhverju ráðuneyti þessa daga fram að kosningum vegna þess að það eiga að vera menn frá öllum flokkum.

Þetta er stórbrotið. Tillagan gengur út á að leiða Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn strax til valda, núna, fyrir kosningar, fara með þá inn í ríkisstjórn. (Gripið fram í: Talaðu nú …) Það segir sína sögu (ÞSa: Talaðu um …) um botnleysið í þessu öllu saman. Stjórnarandstaðan og sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki þetta mál sem er tilefni vantraustsins. Engu að síður hengja þeir sig hér aftan í forustu hv. þm. Þórs Saaris. Þeir gera hann, sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, að hinum nýja leiðtoga sínum. Hann er orðinn yfirformaðurinn. Til hamingju, Bjarni Benediktsson, hv. þingmaður og formaður Sjálfstæðisflokksins. Til hamingju, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hv. þingmaður og formaður Framsóknarflokksins, með nýja yfirformanninn, hv. þm. Þór Saari. (Gripið fram í.) Þríeykið, það er komið nýtt þríeyki fram í íslenskum stjórnmálum. (GBS: … er þó ekki …) Hv. þm. Þór Saari er yfirformaður og varaformenn eru hv. þm. Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Þetta er stórbrotið.

Síðan koma hér stjórnarandstæðingar og segja: Já, en við er erum alls ekkert að greiða atkvæði á þessum forsendum, við erum að greiða atkvæði um einhverja allt aðra tillögu sem við flytjum að vísu ekki sjálfir heldur fær andúð okkar á ríkisstjórninni far með tillögu hv. þm. Þórs Saaris um allt annan hlut.

Síðan tala stjórnarandstæðingar inn í sinn heimatilbúna veruleika íslenskra stjórnmála eins og núverandi ríkisstjórn hafi tekið við góðu búi, hún sé að glutra niður glæstum árangri fyrri ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins. Það hlýtur eiginlega að vera því að svona tala menn ekki í vitrænni umræðu þar sem raunheimurinn ræður málflutningi manna, nema þetta sé svona. Halda menn að þjóðin kaupi þetta? Ég held ekki. Ég spái því að íslenska þjóðin muni ekki hafa áhuga á því að láta sömu menn ljúga að sér aftur, þá hina sömu og lugu að þjóðinni fyrir hrunið, árum saman, en það er það sem verið er að bjóða upp á. Nú á að trúa (Gripið fram í.) gylliboðum mannanna sem höfðu öll völd í landinu í hátt í tvo áratugi og skildu við það í kaldakoli. Nei, nú ætlum við að gera þetta vel, nú má trúa okkur, segja þeir hérna, hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Ég spái því að það verði ekki þannig, ýmislegt mun rifjast upp á þessum sex vikum sem eftir eru fram að kosningum.

Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin hefur lokið því sem hún tók að sér númer eitt, tvö og þrjú. Það var að forða Íslandi frá gjaldþroti, það var að koma ríkissjóði aftur í lag og það var að fara með samfélagið eins vel í gegnum þessa erfiðleika og mögulegt var og það höfum við gert. Það viðurkennir allur umheimurinn sem horfir á Ísland og metur það út frá viðurkenndum mælikvörðum. Það er bara lítill heimatilbúinn veruleiki Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar í seinni tíð, undir stjórn konsertmeistara hrunsins, ritstjóra Morgunblaðsins, Davíðs Oddssonar, sem viðurkennir það ekki. Það er undarlegt að sjá þessa meðvirkni Sjálfstæðisflokksins enn þann dag í dag. (Gripið fram í.) Mikill er máttur sprotans sem Davíð Oddsson heldur í hendi sér og sveiflar og þeir hlaupa allir til eins og litlir drengir — nema nú er kominn annar konsertmeistari, hv. þm. Þór Saari. Það verður gaman að sjá hvernig göngulagið verður undir tvíeykisstjórn þeirra Davíðs Oddssonar og hv. þm. Þórs Saaris. (ÞSa: Talaðu nú um þjóðaratkvæðagreiðsluna.)

Að lokum vil ég, frú forseti, taka undir með hv. þm. Álfheiði Ingadóttur sem fordæmdi (Forseti hringir.) árásir á fráfarandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Það skal verða þeim smámennum (Forseti hringir.) til skammar sem nota hérna síðustu dagana í að ráðast á hana. Þeir verða fótnóta í íslenskri stjórnmálasögu (Forseti hringir.) þar sem hlutur Jóhönnu Sigurðardóttur verður stór. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (ÞBack): Þegar komið er að síðustu ræðum verður að gæta að ræðutíma.)