141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[14:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að oft er órói í aftursætinu og síðasta ræða bar þess glöggt merki að ekki eru allir rólegir þegar þeir eru komnir aftast í bílinn. En mér þótt mjög slæmt þegar hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra fór að brigsla framsóknarmönnum um að ljúga. Ég gat ekki skilið orð hans öðruvísi. Maður sem stóð hér og talaði um Icesave úr þessum ræðustól. Það er skráð í þingtíðindi hvað orð hans þýddu þá. Hver voru kosningaloforð Vinstri grænna fyrir síðustu alþingiskosningar? Hvað með ESB og hvað varð um ESB? Hæstv. ráðherra þarf að standa skil á því og mun að sjálfsögðu gera það í næstu kosningum.

Frú forseti. Tillaga hv. þm. Þórs Saaris á fyllilega rétt á sér en hún kemur fram á röngum tíma og röngum forsendum. Það er staðreynd málsins. (Gripið fram í.) Forsendurnar eru einfaldlega rangar fyrir þessari tillögu, ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur átti að fara frá fyrir löngu. Þegar ljóst varð að hún ætlaði ekki að standa með heimilunum því að hún ætlaði ekki að reisa við atvinnulífið átti ríkisstjórnin að fara frá, þegar tækifærunum var glutrað til að endurreisa Ísland. Þessu glutraði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, því miður. Hún ákvað að nota það svigrúm sem var til við að endurreisa íslensku bankana, láta bankana, fjármálaliðið hafa peningana, hafa svigrúmið, ekki heimilin og ekki fyrirtækin. Fyrir það verður hennar minnst. Það er því miður staðreyndin.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefði að sjálfsögðu fengið fleiri vantrauststillögur á sig ef Hreyfingin og Björt framtíð hefðu ekki varið ríkisstjórnina í þessum sal, hefðu ekki varið hana úti í samfélaginu og í nefndum. Nú er hins vegar ljóst, frú forseti, sem er mjög ánægjulegt, að við erum núna farin að sjá örlítið í eitthvert kosningabandalag ríkisstjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar sem ætla sér greinilega að starfa hér áfram að loknum kosningum því að þessir flokkar ætla sér að verja ríkisstjórnina falli í dag, þessir þrír flokkar. (Gripið fram í.) Það er algjörlega ljóst að þessir þrír flokkar ætla í kosningabandalag og Framsóknarflokkurinn verður ekki í því bandalagi, þannig að strax sé tekinn af allur vafi um það, ekki frekar en í bandalagi með öðrum flokkum [Kliður í þingsal.] svo að það sé ljóst. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Það er mikill misskilningur á ferð hjá mörgum ræðumönnum hér, að stjórnarskrá Íslands hafi orsakað hrunið, að stjórnarskráin og breytingar á henni muni laga stöðu íslenskra heimila og koma fyrirtækjum og atvinnulífinu af stað aftur. Það er mikill misskilningur. Það hefði farið betur ef stjórnvöld hefðu notað tímann og fjármunina í að vinna að þessum brýnustu málum samfélagsins. Nei, stjórnvöld ákváðu að eyða á annan milljarði króna og miklum tíma þings og þjóðar í að breyta stjórnarskrá sem hafði ekkert með mikilvægustu atriðin að gera, ekki neitt. Það er sorglegt, frú forseti, að sjá hvernig þessum tíma hefur verið varið.

Hver ættu viðfangsefnin að vera í dag? Það er að sjálfsögðu að taka á verðtryggingunni og leiðrétta skuldir heimilanna eins og talað hefur verið um síðan 2009. Það viðurkenna flestir í dag, því miður ekki allir, að fara átti þá leið sem Framsóknarflokkurinn lagði til með almennri leiðréttingu á skuldum heimilanna. Það átti að fara þá leið en því tækifæri var kastað á glæ. Það er ekkert útilokað enn þá að fara í slíkar aðgerðir, það er bara ekkert útilokað, en menn þurfa að hafa opinn hug og vilja til þess og það hafa núverandi stjórnvöld ekki.

Svo við tölum aðeins um verðtrygginguna. Í þingnefnd er frumvarp þingmanna Framsóknarflokksins um það hvernig megi hamla eða taka á því fyrirbæri sem verðtryggingin er, t.d. með því að setja á hana þak til að gera bönkum og fjármálastofnunum erfitt að eiga mikið magn af verðtryggðum lánum og til að takmarka tengsl ríkissjóðs þegar ríkisstjórnin hækkar gjöld að tengja þau við vísitölu. Af hverju er þetta mál ekki afgreitt úr nefnd? Af hverju er það ekki afgreitt hér á síðustu dögum þingsins í staðinn fyrir að vera að þvarga um þessa stjórnarskrá sem engu breytir um stöðu heimilanna eða framtíð þessa lands? Þetta er furðuleg forgangsröðun, frú forseti, og ég ætla að leyfa mér að mótmæla henni harðlega.

Það sem er hins vegar fram undan er að koma með tillögur á næstu vikum og mánuðum sem verða kosningatillögur um hvernig við ætlum að koma hér hjólum atvinnulífsins af stað, hvernig við ætlum að auka hagvöxt sem er að (Gripið fram í.) hruni kominn og til hvers og hvernig við ætlum að koma í veg fyrir að hæstv. utanríkisráðherra sitji áfram í þeim stól sem hann situr í með það að markmiði að vinna ekki fyrir heimilin og ekki fyrir atvinnulífið. Það er verkefnið á næstunni. (Gripið fram í.)

Við munum setja fram tillögur sem eru trúverðugar og munu ganga upp vegna þess að ekkert skiptir jafnmiklu máli á næstunni og það að koma hjólum atvinnulífsins af stað og lækka skuldir heimilanna þannig að þau geti verið virkur þátttakandi í efnahagslífi landsins. Á því hefur þessi ríkisstjórn klikkað, hún hefur ekki haft áhuga á því, hún hefur haft tækifæri, hún hefur haft tillögur, fjöldann allan af tillögum sem ekki komu frá henni til að vinna eftir en hún kaus að gera það ekki. Hún kaus að sinna engu. Hún ákvað hins vegar að styrkja fjármálageirann eins og stjórnarliðar vildu og gera gjarnan, sérstaklega Samfylkingin. Hvað með bóluhagkerfið 2007–2008? Var það ekki í boði Samfylkingarinnar sem vildi auka útrásina? (Forseti hringir.) Er það þetta sem við viljum, frú forseti? Nei, við þurfum að horfa á heimilin og við þurfum að horfa til atvinnulífsins.