141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[14:31]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum nú komin að lokum þessarar vantraustsumræðu á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég tel að við stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar höfum fært fyrir því gild rök í dag hvers vegna segja á nei við þeirri tillögu.

Ríkisstjórnin hefur unnið gott verk á ferli sínum og nú líður að kosningum. Þær hafa þegar verið boðaðar. Við getum horft stolt til baka en tillagan sem hér hefur verið lögð fram mun ekki leiða til neins góðs og ekki neins nýs. Hún mun fyrst og fremst valda því að kosningum þarf að flýta um tvo daga og ógilda þarf þá utankjörfundaratkvæðagreiðslu sem hafin er.

Ef við horfum til baka yfir liðið kjörtímabil og hugsum: Hvað er það sem okkur hefur ekki tekist? Hvort sem við erum í ríkisstjórn eða stjórnarandstöðu höfum við búið við fordæmalausa stjórnmálaumræðu, hatursfyllri og ofbeldisfyllri en nokkru sinni fyrr í lýðveldissögunni. Það er sú arfleifð sem við sitjum uppi með.

Við gengum hér undir eggjaregni til þingsetningar einn dag á þessu kjörtímabili eftir að presturinn hafði lagt út af orðunum „Viljum við verða heil?“ Við höfum ekki enn þá svarað þeirri spurningu: Viljum við verða heil? Viljum við skapa eitthvað gott? Það er verkefni okkar allra sem viljum vera áfram í þessu húsi, að reisa Alþingi og umræðuna á Alþingi upp úr þeirri lágkúru sem allt of oft hefur einkennt vinnubrögð á þessu kjörtímabili, að hætta að hjakka í fari haturs og brigslyrða og brjóta nýja leið. Þá myndast á síðustu dögum þessa kjörtímabils undarlega dapurlegt bandalag milli hv. þm. Þórs Saaris, sem framar öðrum hefur tekið svari hatursfullrar orðræðu og athafna á þessu kjörtímabili, og Sjálfstæðisflokksins þar sem þeir fallast í kæfandi faðmlag, hv. þm. Þór Saari og hv. þm. Bjarni Benediktsson.

Menn geta haft á því ýmsar skoðanir hvort alltaf sé skylda stjórnarandstöðunnar að greiða atkvæði með vantrausti. En þegar forsagan er höfð í huga verður þetta skringilega bandalag Sjálfstæðisflokksins og Þórs Saaris enn undarlegra. Um hvað er þessi samstaða? Hún er samstaða um kyrrstöðuna þar sem á annan kantinn Þór Saari vill refsa ríkisstjórninni fyrir að ná ekki í gegn öllu á þeim punkti sem hann vill ná því gegn, og hins vegar hv. þm. Bjarni Benediktsson, sem vill beita öllum brögðum til að koma í veg fyrir að nokkuð breytist nokkurn tíma. Þarna sameinast enn sem fyrr fyrir öfgaöflin um kyrrstöðu vonleysisins þar sem menn sjá sér hag í því að bindast samtökum um að betra sé að ekkert gerist. Þá er það tryggt að þeir sem tala fyrir ýtrustu breytingunum geta lýst yfir fullnaðarsigri vegna þess að ekkert náðist í gegn og hinir sem aldrei vildu neinar breytingar fá fullkomna afsökun fyrir að spila með þeim. (BirgJ: Af hverju … segja já við þessari tillögu?)

Það er svo sérstakt áhyggjuefni að Framsóknarflokkurinn skuli ekki megna að stíga burt frá stóra bróður í þessum málflutningi öllum saman. Ég batt vonir við að framsóknarmenn ætluðu sér að sitja hjá við þessa tillögu eftir að heyra í ágætum fulltrúa þeirra, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, í Silfri Egils í gær þar sem hún sagði að tillagan væri svo vitlaus að líklega væri best að sitja hjá. Því miður virðast ráð hennar ekki hafa orðið ofan á í þingflokki Framsóknarflokksins en ég velti því samt fyrir mér hvernig menn geta fundið það hjá sér að greiða atkvæði með vantrausti sem, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sagði rétt áðan, er lagt fram á röngum tíma og á röngum forsendum.

Það þarf auðvitað hugmyndaauðgi til þess að komast að þeirri niðurstöðu að styðja slíkt vantraust en ég efa ekki að framsóknarmenn muni geta gefið okkur innsýn í það hvernig þeir komust að þeirri niðurstöðu í atkvæðaskýringum á eftir.

Eins og ég rakti áðan verða engin efnisleg áhrif af tillögunni, ekki nema markmið tillöguflytjenda og stuðningsmannanna, hv. þm. Bjarna Benediktssonar, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Þórs Saaris sé að eyða síðustu vikum þessa kjörtímabils í ástríku faðmlagi við stjórn landsins. Það kann að vera að það sé draumurinn að fá að verma ráðherrastóla í nokkrar vikur fram að kosningum og að það ráði (Gripið fram í.) upplegginu og áherslunni hér, en það er þá sérkennileg málafylgja.

Þegar hefur verið boðað til kosninga og utankjörfundaratkvæðagreiðsla er hafin. Einu sinni hafði Sjálfstæðisflokkurinn þann metnað til að bera og einu sinni bar hann þá virðingu fyrir kosningum og fyrir réttindum fólks í þessu landi að vera ekki að leika sér að því að styðja tillögur sem fela í sér að hafin kosning sé ógilt að óþörfu. En núna ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að leika þann leik að styðja vantrauststillögu sem leiðir til þess að sú utankjörfundaratkvæðagreiðsla sem hafin er þurfi að ógildast.

Í reynd stöndum við nú frammi fyrir prófsteini á Alþingi Íslendinga. Megnar það að stíga burt úr tilgangslausu gargi haturs og brigslyrða undanfarin ár? Megnum við að brjóta nýja leið? Að gera eitthvað nýtt? Að finna nýja leið fram á við? Við, hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Steingrímsson, höfum lagt fram á Alþingi tillögur sem miða að því nákvæmlega að leita sátta í stjórnarskrármálinu, (BirgJ: … í þjóðaratkvæðagreiðslu.) að finna leiðina fram á við og virða viljann sem fram kom í þjóðaratkvæðagreiðslunni (BirgJ: Það er ekkert virt sem …) því að í þjóðaratkvæðagreiðslunni (BirgJ: Nei.) var þjóðin spurð hvort hún vildi að fyrir Alþingi yrði lagt frumvarp sem unnið væri á grunni tillagna stjórnlagaráðs. Því er tillaga okkar (JónG: Og vantar … ráðherra …) þriggja í fullkomnu samræmi við þann þjóðarvilja sem þar var tjáður. Það kemst enginn stjórnmálamaður í landinu fram hjá honum og á því verða sjálfstæðismenn og framsóknarmenn líka að átta sig ef þeir meina eitthvað með því að berja sér á brjóst yfir þeim árangri sem blessunarlega hefur náðst á þessu kjörtímabili í samspili þjóðar og þings í gegnum Icesave-málið, þá verða þeir að átta sig á því að þeir geta ekki hunsað þjóðarviljann í stjórnarskrármálinu en virt hann í Icesave-málinu. Þeir þurfa alltaf að virða þjóðarviljann og við bjóðum upp á leið til þess í þeim tillögum sem við höfum lagt fram. (Gripið fram í.) Núna liggur á borðinu tilboð frá okkur formönnunum þremur. Við erum tilbúin til samstarfs um skynsamlegar leiðir í stjórnarskrármálinu. Það er kyrrstöðuaflanna að velja hvort tekið verður í þá útréttu sáttarhönd.