141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[14:42]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það hefur vakið athygli mína í umræðu og nú síðast í útslagi hæstv. forsætisráðherra að frekar lítið er talað af hálfu stjórnarliða um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Verið er að hunsa niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar af hálfu meiri hlutans og ríkisstjórnarinnar sem situr í umboði þess meiri hluta.

Það er fáheyrt og sennilega hefur það aldrei gerst í lýðræðisríki að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu séu hunsaðar með þeim hætti sem stjórnarmeirihlutinn á Alþingi Íslendinga gerir núna þessa dagana. Það er fáheyrt og það er ekki góður bragur á því að láta slíka ríkisstjórn og slíkan þingmeirihluta sitja áfram. Ég veit ekki hvað það þýðir fyrir lýðræðið inn í framtíðina þegar slíkt gerist eða hvað það mun þýða fyrir orðspor Íslands á alþjóðavettvangi, en ég mun gera það sem ég get og hef lagt mitt af mörkum til að reyna að leiðrétta þann kúrs sem núverandi meiri hluti hefur farið. Vonandi tekst það hér í dag.