141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[14:44]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við höfum í umræðum í dag gert grein fyrir því að þó að við styðjum ekki bakgrunn þeirrar vantrauststillögu sem hér er komin fram er auðfenginn stuðningur við vantraust á ríkisstjórnina (Gripið fram í.) frá Sjálfstæðisflokknum. (Utanrrh.: Undir forustu Þórs Saaris.) Hæstv. utanríkisráðherra verður að sætta sig við að hér í þingsal sé látið reyna á hvort ríkisstjórnin nýtur áfram trausts burt séð frá því hvort kosningar eru fram undan eða ekki. Í þessari tillögu verða greidd atkvæði um hvort tveggja, þ.e. um það hvort ríkisstjórnin njóti trausts og síðan, ef á það verður fallist að vantrausti sé lýst á ríkisstjórnina, verða greidd atkvæði um seinni liðinn. Það er því með engu móti hægt að halda því fram að þær kosningar sem fram undan eru séu í einhverju uppnámi. Málið snýst einfaldlega um fyrri liðinn, um það hvort ríkisstjórnin nýtur trausts í þinginu. Það var eðlilegt að fram kæmi (Forseti hringir.) tillaga um að lýsa vantrausti, ekki síst í ljósi þess hversu lengi stjórnin hefur starfað sem minnihlutastjórn.