141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[14:47]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við þingmenn Bjartrar framtíðar höfum nú um nokkurt skeið talað af einlægni og af hugsjón og af virðingu fyrir stjórnarskrárendurskoðuninni allri, fyrir leið sem felur í sér að hægt sé að halda áfram þeirri vinnu á næsta kjörtímabili, ljúka þeirri vinnu með yfirgripsmeiri sátt í samfélaginu og bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Forsenda tillögu hv. þm. Þórs Saaris í dag um vantraust á ríkisstjórnina er nánast spaugileg andúð á þeirri leið sem við leggjum til. Hún er órökstudd. Hv. þingmaður hefur ekki sýnt fram á að leið hans til þess að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá sé betri en sú leið sem við þingmenn Bjartrar framtíðar höfum lagt til og við leggjum nú til, ég, hæstv. ráðherra Katrín Jakobsdóttir og hv. þm. Árni Páll Árnason. Þetta er bara meiningarmunur, (Forseti hringir.) en við hljótum að segja nei við vantrauststillögu sem byggð er á slíkri andúð við leið okkar og líka af þeirri augljósu ástæðu að vantrauststillaga á þessum tímapunkti er einfaldlega merkingarlaus.