141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[14:55]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við höfum hér í dag orðið vitni að stórbrotnasta hentugleikahjónabandi þingsögunnar [Hlátur í þingsal.] þar sem gengið hafa í eina sæng hv. þm. Þór Saari og hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sem opinberaði stoltur í umræðunni í dag að hjónaefnin væru eins ósammála um forsendur hjónabandsins og nokkrir tveir menn gætu orðið um nokkurt mál.

Virðulegi forseti. Núverandi meiri hluti á Alþingi tók um það ákvörðun að þjóðin skyldi ráða för við endurskoðun stjórnarskrárinnar og þjóðin kvað upp þann dóm 20. október að frumvarp stjórnlagaráðs skyldi vera grundvöllur nýrrar stjórnarskrár. Okkur ber auðvitað skylda til að virða þann þjóðarvilja. Það gerum við ekki með því að samþykkja vantraust á ríkisstjórnina heldur með því að koma málinu í heila höfn á þessu þingi og tryggja framgang þess yfir á það næsta því að ný stjórnarskrá verður ekki að veruleika nema næsta þing samþykki hana. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)