141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[15:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég minni á að hér erum við eingöngu að greiða atkvæði um það hvort þingmenn bera traust til ríkisstjórnarinnar eða ekki. Við erum ekki að greiða atkvæði um þingrof. Við erum ekki að greiða atkvæði um forsendur hv. þm. Þórs Saaris eða Bjarna Benediktssonar. Við erum bara að greiða atkvæði um það hvort menn bera traust til þessarar ríkisstjórnar og þess sem hún hefur gert á undanförnum fjórum árum og vilja sjá meira af því sama væntanlega á næsta kjörtímabili.

Ef menn trúa því raunverulega að þingmeirihluti sé fyrir stjórnarskrárfrumvarpinu eins og það liggur fyrir núna og eru ósáttir við hvernig á því hefur verið haldið af hálfu þeirra sem ráða för í þinginu, stjórnarmeirihlutans, er einfaldlega best að samþykkja fyrri hluta tillögunnar, tillöguna um vantraust á ríkisstjórnina, og hafna seinni hlutanum. Þar með starfar þingið áfram, þingið ræður för og getur tekið ákvörðun um stjórnarskrána eða hvað annað mál menn vilja setja á dagskrá. Ég segi já.