141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[15:04]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, hafa hér, þó að vísu undir forustu leiðtoga síns, hv. þm. Þórs Saaris sem flytur tillögu um vantraust vegna stjórnarskrármálsins, talað mikið um að hér sé á ferðinni atkvæðagreiðsla um hvort ríkisstjórnin njóti trausts. Gott og vel. Skyldi svo fara að ríkisstjórnin standi nú vantraustið af sér, ætlar stjórnarandstaðan þá að virða þá niðurstöðu? Ætlar hún þá að virða það að hér sitji fram að lokum kjörtímabilsins réttkjörin ríkisstjórn með umboð frá þjóðinni í síðustu alþingiskosningum og sem þingið hefur veitt traust? Megum við treysta því eftir þessa atkvæðagreiðslu, fari hún svo að ríkisstjórnin standist vantraustið, hætti stjórnarandstaðan að eyðileggja framgang mála á þingi (Gripið fram í.) og virði það að hér sé ríkisstjórn (Forseti hringir.) með umboð til að starfa áfram? [Frammíköll í þingsal.]

Ég segi nei. Ég segi nei, frú forseti, þessi vantrauststillaga er skrípaleikur og öllum þeim (Forseti hringir.) sem að henni standa og henni greiða atkvæði sitt til skammar. Ég segi nei.