141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[15:07]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Það virðast ekki allir vera sammála um það einu sinni um hvað við erum að greiða atkvæði. [Hlátur í þingsal.] Erum við að hefna okkar á ríkisstjórninni, við sem áttum drauma um meiri árangur en séð hefur dagsins ljós? Eigum við sem viljum fá nýja stjórnarskrá samkvæmt vilja þjóðarinnar í gildi sem allra fyrst eða koma henni í atkvæðagreiðslu til þjóðarinnar einhverja möguleika á að svo verði í þessari atkvæðagreiðslu? Um hvað snýst þetta? Ég er bara ekki alveg klár á því. Ég er þó klár á einum hlut og það er að við erum ekki hótinu nær því að þjóðarviljinn nái fram að ganga á þessu þingi þó ríkisstjórnin sem hefur barist með oddi og egg fyrir nýrri stjórnarskrá verði látin víkja. Því segi ég nei við (Forseti hringir.) þessari tillögu.