141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[15:10]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ísland er á réttri leið eftir efnahagshrunið haustið 2008. Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar hefur lyft grettistaki við endurreisn samfélagsins. Staðreyndirnar tala sínu máli og það hefur heppnast að byggja landið upp úr rústum þess hruns sem óheft frjálshyggjan leiddi þjóðina í og byggði á fölskum hagvexti og vaxandi misskiptingu. Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa unnið mikla vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar, meiri en dæmi er um, m.a. með þátttöku þingmanna Hreyfingarinnar. Engu að síður er úr þeim ranni lögð fram vantrauststillaga þegar þingkosningar eru í raun hafnar. Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna láta sig hafa þá lágkúru að taka þátt í þeim skollaleik. Þau rísa ekki hátt prinsippin í herbúðum þeirra sem freista þess að endurheimta völdin í landinu með innihaldslausum gylliboðum til að snúa af braut jöfnuðar og réttlætis. Þeir sem styðja þessa vantrauststillögu lýsa um leið stuðningi við yfirvofandi íhalds- og helmingaskiptastjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ég segi nei.