141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[15:12]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það hefur í raun og veru verið stórskemmtilegt að fylgjast með viðbrögðum stjórnarliða við ræðum stjórnarandstæðinga. Það þykir miklum tíðindum sæta að stjórnarandstæðingar sem hafa að því er sagt er verið gríðarlega erfiðir við stjórnina skuli styðja á hana vantraust. Eiga það að vera einhver ný tíðindi? Alveg með ólíkindum.

Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson kemur hér upp en hann var nú lengi vel einn af kettlingunum sem hæstv. forsætisráðherra var í vandræðum með vegna þess að hann var alltaf með ríkisstjórnina á skilorði: Ég gef henni tvo mánuði. Ég gef henni þrjá ef þetta fer ekki að fara í gang, kannski verða það fjórir. (Gripið fram í.) Hann er fyrir löngu búinn að leggja niður skottið og kemur svo hér upp og ver ríkisstjórnina eins og hún hafi náð einhverjum árangri. Og að hlusta á hæstv. forsætisráðherra tala eins og hún hafi ekki setið í ríkisstjórn samfleytt í sex ár. Hún vísar til þess sem gerðist í tíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, manneskja sem komst í æðstu valdastöðu íslenska ríkisins sem forsætisráðherra í fjögur heil ár, kemur hingað upp og talar eins og það hafi aldrei gerst (Forseti hringir.) og að Samfylkingin hafi ekki einu sinni verið í ríkisstjórninni sem tók við árið 2007. Þetta er allt saman með mestu ólíkindum.

Ég er einn af stjórnarandstæðingunum (Forseti hringir.) sem stend hér stoltur og segi já við vantrausti á ríkisstjórnina. Við höfum gert vel grein fyrir afstöðu okkar. Þeir sem helst þurfa að skýra mál sitt frekar eru þeir sem hafa yfirgefið (Forseti hringir.) stjórnarflokkana en treysta sér engu að síður ekki til að lýsa á hana vantrausti.