141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[15:14]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Endurskoðun stjórnarskrárinnar og allt það langa og vandaða lýðræðisferli sem hefur staðið yfir á kjörtímabilinu er eitt af mikilvægustu málum þess kjörtímabils sem senn er á enda. Meintar vanefndir í því máli eru forsendur þessarar tillögu. Þær forsendur eru fullkomin rökleysa eins og afhjúpast hefur mjög afdráttarlaust í umræðunni í dag. Nú er allt kapp lagt á að tryggja að endurskoðunarferli stjórnarskrárinnar geti lokið. Það er gert með öllum tiltækum ráðum líkt og sáttatilraunir formanna stjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar bera með sér. Ég held að gera þurfi allt sem hægt er að gera til að tryggja að á þeim fáu dögum sem eru eftir af þingi að endurskoðun stjórnarskrárinnar ljúki, það ferli fari í heila höfn. Þess vegna segi ég nei við þessari vantrauststillögu.