141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[15:17]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Mér finnst ég þurfa að segja einu sinni enn: Það er ekki þetta þing sem hefur úrslitavald um hvort við fáum nýja stjórnarskrá. Það er næsta þing sem hefur endanlegt úrskurðarvald um það. Sú staðreynd blasir við. Ég er mjög stoltur af því að hafa komið að því sem stuðningsmaður nýrrar stjórnarskrár (Gripið fram í: Og ríkisstjórnarinnar.) fyrir Íslendinga að reyna að hanna leið sem felur í sér að líkurnar aukist á því að næsta þing klári málið. (Gripið fram í: Það var búið að hanna …) Sú leið felur í sér að málið verði enn þá opið til efnislegrar umræðu í upphafi næsta þings. Vonandi verður þingmeirihluti fyrir því að klára það. Björt framtíð mun setja það mjög rækilega á oddinn að klára málið og að það geti síðan endað með þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru þau nýju stjórnmál sem við viljum boða í Bjartri framtíð. (Forseti hringir.) Við eigum að taka okkur tíma til að ræða og komast að niðurstöðu, sérstaklega þegar stjórnarskrá lýðveldisins er annars vegar. Hún er ekki bara stjórnarskrá hv. þm. Þórs Saaris heldur stjórnarskrá okkar (Forseti hringir.) allra. Gefum okkur tíma. Við erum búin að hanna leið og erum komin langleiðina, ég held að við séum komin 90% og (Forseti hringir.) það vantar kannski 10% upp á. Leiðin er fyrir hendi. Ég segi nei við þessari tillögu.