141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

öryggismál borgarinnar.

[16:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðuleg forseti. Það er fullt tilefni til að ræða við hæstv. velferðarráðherra en ég var búinn að biðja um annað, það er best að halda sig við það.

Mig langar a spyrja hæstv. innanríkisráðherra út í mál sem hefur verið okkur framsóknarmönnum sem og mörgum öðrum þingmönnum mjög hugleikið, það eru öryggismál borgaranna. Ég huga hér að löggæsluáætlun sem var samþykkt að vinna og starfshópur var settur í. Það skiptir okkur miklu máli að við gerum okkur grein fyrir því hvert umfang löggæslunnar þarf að vera og kostnaður. Það skiptir okkur líka miklu máli að geta horft til framtíðar og áttað okkur á hvað löggæslan þarf mikla fjármuni því að fjármunum ríkissjóðs verður að sjálfsögðu ekki ráðstafað margoft. Við þurfum að horfa til margra þátta í framtíðinni, atvinnumála sérstaklega og auðvitað heimilanna.

Varðandi löggæsluáætlunina langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvar sú vinna er nákvæmlega stödd, hvort skýrslan sem átti að vinna sé tilbúin, hvort ráðherra hyggist kynna hana eða leggja hana fyrir Alþingi. Ég held að ráðherra ætti í það minnsta að dreifa skýrslunni til þingmanna ef hún er tilbúin.

Mig langar í framhaldinu að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því að þetta verk verði klárað sé því ekki alveg lokið á næstu dögum því að það er mikilvægt við sjáum þessa skýrslu, hún komi fram í dagsljósið. Ég hygg að töluvert sé búið að vinna í henni og að menn hafi áttað sig á því hver þörfin sé og hvert beri að stefna.

Samhliða þessu er að sjálfsögðu verið að vinna að þjóðaröryggisstefnu sem hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt áherslu á. Þetta hangir kannski að einhverju leyti saman. Mig langar að forvitnast um þetta hjá hæstv. ráðherra.