141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

öryggismál borgarinnar.

[16:18]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Því er til að svara að þessi skýrsla er tilbúin. Um er að ræða skýrslu sem byggir á samþykkt Alþingis um að þverpólitísk nefnd yrði skipuð til þess að fara í saumana á löggæslumálunum og gera tillögur um áherslur fram í tímann. Það er síðan undir fjárveitingavaldinu komið, að sjálfsögðu, hvernig til tekst að framfylgja þeim óskum sem fram koma í þessari skýrslu, en í henni koma fram hvaða áherslur þessi þverpólitíska nefnd vill leggja um uppbyggingu löggæslunnar á komandi árum. Skýrslan er á leiðinni inn í þingið, ég vil ekki segja á næstu klukkutímum en á næstunni.