141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

útboð á sjúkraflugi.

[16:23]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki alveg á spurningunni, þ.e. hvort byrjað sé að vinna að næsta útboði. (ÁJ: Ég spurði að því.) Það er nýbúið að bjóða út, það er ekki byrjað að vinna að nýju útboði.

Það er rétt sem hv. þingmaður sagði að ósk kom um það frá Landhelgisgæslunni að skoðað yrði hvort hægt væri að gera út flug frá Akureyri með þeim flugflota sem þeir hafa, bæði þyrlunum og flugvél þeirra. Í sjálfu sér er þeirri vinnu ekki lokið enda er það undir innanríkisráðuneytinu komið að vinna þá vinnu og skoða með hvaða hætti hún eigi að vera.

Varðandi útboðið að öðru leyti þá var það unnið af fagfólki og ég ætla ekki að blanda mér í það.

Ég þakka þingmanninum fyrir að nota hér þau orð að ég hafi „gefið í skyn“ því að þegar um þetta var fjallað á sínum tíma var sagt að ég hefði gefið loforð. Það var algjörlega rangt enda hef ég aldrei gefið neitt loforð, hef ekkert umboð til þess og aldrei stóð til að gefa eitthvert loforð um það að flug yrði með einhverjum ákveðnum hætti.

Á sínum tíma, ef ég fer rétt með, var talað um að sjúkraflugvélar yrðu staðsettar á þremur stöðum. Ég held að Ísafjörður hafi verið inni upphaflega, Vestmannaeyjar og síðan Akureyri. Þetta hefur þróast yfir í það að allt flug er gert út frá Akureyri. Það er teiknað upp miðað við staðsetningu og líka miðað við hvar þyrlurnar eru staðsettar í dag hvernig við þjónustum landið best. Við höfum því miður ekki haft efni á því að bæta aftur við og taka upp sjúkraflug frá fleiri stöðum eftir hrun. Okkur veitir ekki af að bjarga og tryggja það að þjónusta sé sem best á þessum stöðum, þá á ég við á heilbrigðisstofnunum sem skiptir mjög miklu máli. Þar hafa Vestmannaeyjar verið í dálitlum erfiðleikum. Við þurfum að fylgjast með því og reyna að hjálpa þeim að klára sín mál. Það hefur verið í forgangi umfram það að bæta við viðbótarvélum enda hefur Mýflug, eins og hv. þingmaður kom ágætlega að, sem var aftur lægst í því útboði sem hér er um að ræða, þjónað og sinnt þessu mjög vel og verið til fyrirmyndar.