141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[16:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Skúla Helgasyni að málið var rætt heilmikið og af talsverðum innblæstri. Margt í samfélaginu er skýrt og skýrðist eftir þá umræðu, m.a. að allir eru sammála, held ég, um að málið sé gott. Í athugasemdum með frumvarpinu er eftirfarandi setning sem ég ætla að fá að lesa, með leyfi forseta:

„Frumvarpinu er ætlað að bregðast tímabundið við áframhaldandi greiðsluerfiðleikum fyrirtækja.“

Við ræddum vantraust hér áðan, í lok kjörtímabilsins. Kjörtímabilinu er að ljúka. Greiðsluvandi fyrirtækja og heimila er enn til staðar og óleystur en þetta hjálpar vissulega aðeins til.