141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[17:17]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og yfirferðina á frumvarpinu þar sem í raun er verið að bregðast við þeim aðstæðum sem eru á markaðnum með því að rýmka heimildir lífeyrissjóðanna til að fara í þessar breytingar á fjárfestingarheimildum.

Mig langar aðeins að inna hæstv. ráðherra eftir einu, sérstaklega í ljósi þess að við samþykktum lög á laugardaginn sem sneru að gjaldeyrishöftum. Á meðan gjaldeyrishöftin eru, telur hæstv. ráðherra að fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóðanna við þau skilyrði, þó að þessi rýmkun hér eigi sér stað, sé nægjanlegt til að lífeyrissjóðirnir geti í raun og veru farið — ég veit ekki hvort ég á að orða það svona — í eðlilegar fjárfestingar? Hvort þessi heimild sé nægilega rúm og geri það að verkum að lífeyrissjóðirnir geti farið í þær fjárfestingar sem þeir nauðsynlega þurfa til að fjárfesta fyrir þær inngreiðslur á lífeyri sem koma inn í sjóðina?