141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[17:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef áður sagt að mér finnast gjaldeyrishöftin eða fjármagnshöftin sem við búum við hér á landi í dag illu heilli til þess fallin að skekkja alla stöðu á markaði. Þau gera það að verkum að í raun og veru verður ekkert eðlilegt í gangi. Þess vegna höfum við lagt svona mikla áherslu á að finna leið út úr þeim og það er sú vegferð sem við lögðum upp í á laugardaginn. Ég fagna því sérstaklega að svo góð samstaða hafi náðst um það. Ég held að kosningar í þessu sambandi eigi ekki að skipta neinu máli heldur eigum við að stíga samhent inn í það verk vegna þess að það snýst fyrst og fremst um að verja íslenska hagsmuni alla leið og standa saman um það.

Ég tel fjármagnshöftin okkur til vansa og öllu fjárfestingarumhverfi á Íslandi, sama hvort það eru lífeyrissjóðir eða aðrir. Þau hamla því líka að erlendir aðilar komi hingað til að fjárfesta og þess vegna verðum við að leggja í þann leiðangur að afnema þau.