141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[17:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um það að ákveðið skref var stigið hér að taka tímasetningarnar úr sambandi til að veita aukinn þrýsting og um það er ekki pólitísk deila. Ég er líka þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að breið samstaða ríki um þetta á Alþingi því að öðruvísi getur það ekki farið nægilega vel að mínu mati, þannig að þetta verði ekki eitthvert pólitískt flopp. Það verður náttúrlega að vera samstaða um þessa hluti.

Mig langar að ítreka aðra spurninguna til hæstv. ráðherra áðan, sem hún hafði ekki tíma til að svara í stuttu andsvari, sem snýr að því umhverfi sem lífeyrissjóðirnir eru í ef gjaldeyrishöftin verða í einhvern tíma, sem ég er auðvitað sammála hæstv. ráðherra um að eru mjög slæm. Telur hún að lífeyrissjóðirnir eða markaðirnir — verið er að opna þarna á frekari heimildir, telur hún að það sé nægjanlegt í kannski eitt eða tvö ár eða guð má vita hvað? Hver er skoðun hæstv. ráðherra á því?