141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[17:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Samkvæmt lögum um lífeyrissjóði hvílir mjög þung og rík skylda á stjórnarmönnum í lífeyrissjóðum að sinna skyldu sinni, þ.e. að hámarka arðsemi sjóðanna. Ég held að sú skylda sé orðin ríkari nú og ríkari kröfur eru gerðar til stjórnarmanna. Hún á auðvitað að vera sá öryggisventill sem til þarf svo að menn fari að öllu með gát í þessu efni. Þeir hafa gert það hingað til, þ.e. eftir hrun, í þeim óskráðu bréfum sem þeir hafa verið að fjárfesta í. Ég er alveg sannfærð um að þetta geti orðið gríðarlega mikilvægt fyrir atvinnulífið vegna þess að við eigum mjög mikið af sterkum, stöndugum og vel stöddum fyrirtækjum sem þurfa sárlega á innspýtingu að halda. Ég á von á að þetta gæti orðið verkfæri til þess að svo geti orðið og þannig aukið nauðsynlega innlenda atvinnuvegafjárfestingu.