141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[17:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan eru mjög ríkar kröfur gerðar til þeirra stjórnarmanna sem í lífeyrissjóðunum sitja, settar eru mjög þröngar skorður utan um lífeyrissjóðina og í lögum. Ég held að eðlilegt sé að nefndin fari vandlega í gegnum það og þá þær vangaveltur sem hv. þingmaður er með og lesi og fari í gegnum þau lög samhliða skoðun á þessu.

Varðandi það hvort málið verði samþykkt eða ekki þá hefur það verið á dagskrá hér í þó nokkurn tíma. Það er eitthvað síðan það var lagt fram og er núna að koma til 1. umr. Ég hefði gjarnan viljað fá það inn fyrr en það voru öfl hér innan húss sem ákváðu að tala mikið og eyða drjúgum tíma í ýmis mál í þinginu sem hefur valdið því að málið kemur hingað inn nokkrum dögum seinna en ég vænti. Ég vona að nefndin líti svo á að málið sé það mikilvægt að það geti komist til nefndar og í gegnum þingið.

Varðandi bólumyndunina, ég hef ekki áhyggjur af því að þetta mál eitt og sér muni valda slíku. Ég hef hins vegar áhyggjur af því ef okkur tekst ekki að vinna okkur út úr fjármagnshöftunum á næstu árum. Þess vegna erum við lögð af stað í þann leiðangur að taka fast utan um það mál til að ná árangri á því sviði.