141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[17:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann fór töluvert yfir almennt umhverfi lífeyrissjóðanna til fjárfestingar og nefndi Framtakssjóðinn og fleira til.

Vonandi eru flestir alþingismenn sammála því að það var mjög bagalegt að við skyldum tapa vörumerkinu sem hv. þingmaður ræddi hér um, tapa því í hendur aðila sem geta í rauninni pakkað vöru sem á ekkert skylt við Ísland og selt undir merkinu Icelandic, væntanlega, ef ég man þetta allt saman rétt. Ég velti fyrir mér hvort við höfum látið nóg í okkur heyra varðandi þá ákvörðun á sínum tíma að láta þetta ganga okkur úr greipum. Hugsanlega höfum við gert mistök með því að grípa ekki inn í með einhverjum hætti, ekki að ég viti hvernig það hefði verið hægt.

Mig langar að biðja þingmanninn að fara nánar yfir það sem hann nefndi í ræðu sinni. Ég verð að viðurkenna að ég kom inn í salinn síðar og náði því ekki alveg byrjuninni á því sem þingmaðurinn talaði um þegar hann talaði um persónulega stöðu þeirra sem voru í stjórn lífeyrissjóðs, væntanlega opinbera sjóðsins, ef ég heyrði rétt. Gæti hann útskýrt það aðeins nánar fyrir mér hver áhættan var eða fyrir hvað menn voru að girða, ef ég hef skilið hv. þingmann? Það væri gott að fá útskýringar á því.

Einnig langar mig að spyrja þingmanninn hvort hann taki undir þau orð sem féllu hér áðan um að það gæti verið varhugavert að auka eða leyfa meiri fjárfestingar í óskráðum bréfum í ljósi þess hve lífeyrissjóðirnir töpuðu gríðarlega miklu fjármagni, væntanlega einhverju af slíkum bréfum, í bankahruninu. Það verður líka að viðurkennast að kostir sjóðanna eru ekki mjög margir í dag.