141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[17:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Aðeins að fyrstu spurningu hv. þingmanns sem snýr að lífeyrissjóðunum og sölumerkinu sem ég hef fjallað um, þá held ég að þetta sé gríðarlega mikilvægt í stöðu lífeyrissjóðanna á fjárfestingarmarkaði því að það er enginn með neitt sambærilegt — það hefur í raun og veru enginn neitt í þá að gera, þeir hafa 120–130 milljarða og rúma 10 milljarða í hverjum einasta mánuði til þess að fjárfesta til viðbótar við það sem þeir eru með. Við þekkjum auðvitað stöðuna á Íbúðalánasjóði, við þekkjum stöðuna í sambandi við ríkissjóð, það er verið að draga úr, þannig að möguleikarnir eru mjög litlir. Það sem ég vil meina með þessu er að lífeyrissjóðirnir sjálfir verða og stjórnendur þeirra — og ég er ekki að halda því fram að það sé ekki þannig — og hæstv. ríkisstjórn eða fjármálaráðherra að eiga samtal um þá miklu ábyrgð sem snýr að þessum hlutum þegar menn yfirtaka fyrirtæki eins og þetta. Mín persónulega skoðun er að þarna hafi verið gerð stór mistök sem muni bitna á okkur í markaðssetningu á íslenskum fiski.

Hitt sem hv. þingmaður spurði um snýr að stöðu þeirra einstaklinga sem sitja í stjórn opinberu sjóðanna. Það er klárt að annaðhvort þarf að hækka iðgjöldin um 4% eða skerða lífeyrisréttindin. Það standa hins vegar ákveðnar deilur um hvort það sé heimilt innan A-deildarinnar. Fjármálaeftirlitið var á þeirri skoðun að það væri heimilt, en látum það liggja á milli hluta.

Ég var bara að draga þá einstaklinga sem sitja í stjórn fyrir ríkisvaldið, eða fyrir hönd hæstv. fjármálaráðherra, inn í umræðuna því að þetta er mjög mikilvægt og þess vegna segi ég það úr þessum ræðustóli til þess að setja það í þingtíðindin: Af hverju skyldu fulltrúar launþegahreyfingarinnar fá lögfræðilegt álit um að leggja fram tillögu sem er felld af fulltrúum fjármálaráðuneytisins? Til þess að hugsa um persónulega stöðu sína sem einstaklingar, ekki neitt annað. Þess vegna er mikilvægt að þetta komi hér fram að mínu mati. Mér hefði ekki liðið vel ef ég hefði ekki komið þessum upplýsingum til þingsins.