141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[18:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir innlegg hans við þessa umræðu. Þar sem hv. þingmaður situr í fjárlaganefnd býr hann oft yfir upplýsingum sem aðrir óbreyttir þingmenn hafa ekki aðgang að. Því vildi ég spyrja hv. þingmann meðal annars út í það sem kom fram í andsvörum við hæstv. ráðherra áðan, um hættuna á því að hér gæti eða sé jafnvel að skapast bóluhagkerfi þar sem lífeyrissjóðirnir hafa sannarlega úr miklum fjármunum að spila og geta ekkert farið með þá nema á innlendan hlutabréfamarkað eða skuldabréfamarkað. Hefur eitthvað verið fjallað í fjárlaganefnd um þá hættu sem margir hafa bent á að sé nú þegar fyrir hendi?

Hér hefur líka verið rætt að við séum nokkuð jákvæð gagnvart því að auka möguleika margra óskráðra félaga. Það hefur ekki verið virkur hlutabréfamarkaður hér á landi fyrir skráð félög. Menn hafa kannski ekki treyst sér til að fara í það ferli þar sem mörg fyrirtæki á Íslandi eru lítil eða frekar smá. Þarna mundi þá vissulega koma möguleiki fyrir slík fyrirtæki að sækja sér fjárfestingarfé og þá um leið tækifæri fyrir lífeyrissjóðina.

Hefur sú hætta sem menn hafa bent á og kemur fram í skýrslu lífeyrissjóðanna, að menn hafi tapað fjármunum á óskráðum félögum, eitthvað verið metin í fjárlaganefnd? Hefur þessi umræða komið upp í tengslum við einhver önnur mál áður en þetta frumvarp kom hingað inn? Að öðrum kosti er augljóst að þetta mál þarf að fara til gagngerrar skoðunar hvað þennan þátt varðar.