141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[18:04]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Annað atriði sem mig langar að koma inn á og hann ræddi nokkuð í ræðu sinni varðar Framtakssjóð lífeyrissjóðanna. Um leið og við erum með væntingar um að þessi hækkun á þakinu veiti nýjum sprotafyrirtækjum, vaxandi fyrirtækjum aukna möguleika á að sækja sér fjárfestingarfé þá höfðu menn nákvæmlega sömu væntingar þegar Framtakssjóður Íslands var stofnaður. Þá var einmitt talað um að hann mundi fjárfesta í nýjum og vaxandi fyrirtækjum. Nú hefur því miður reynslan verið sú, held ég að megi segja, alla vega hvað mig varðar, að Framtakssjóðurinn hefur meira eða minna keypt fyrirtæki út úr hinum föllnu bönkum og endurfjármagnað þau og selt síðan aftur. Og eins og hv. þingmaður kom inn á held ég að menn hafi gert hrapalleg mistök með því að selja Icelandic-merkið.

Telur hv. þingmaður að falskar væntingar gætu falist í því að hækka þetta þak í 25%, að þarna séu möguleikar á að fara inn með aukið fjármagn á nákvæmlega sama hátt og Framtakssjóðurinn átti að gera? En hann valdi síðan að koma ekki að nýjum fyrirtækjum heldur kaupa fyrst og fremst gömul fyrirtæki, sem voru komin í gjörgæslu bankakerfisins, oft og tíðum með mismunandi og stundum alvarlegum afleiðingum á samkeppnismarkaði. Er ekki hættan einfaldlega sú að vegna þröngra ákvæða sem lífeyrissjóðirnir hafa, þrátt fyrir að þetta hljómi vel, sé þetta takmarkandi þáttur og verði kannski ekki nýttur eins og menn sjá möguleika á þegar þeir setja tölurnar á blað?