141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[18:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé rétt sem hv. þingmaður nefnir hérna, að þó svo að menn hækki þessi mörk og séu að reyna að bregðast við ástandinu þá átta þeir sig ekki á því, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan, hvort menn mundu nýta allar þær heimildir sem fyrir lægju. Það verður bara að skýrast í framtíðinni. Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að átta sig á því að þetta mál er í 1. umr. og á eftir að fara til nefndar og þá skoða menn það auðvitað mun betur en kannski er hér í 1. umr. þar sem er bara verið að kalla eftir viðhorfum og athugasemdum.

Það er bara verið að reyna að bregðast við því umhverfi sem er fyrir hendi, hvort þetta er akkúrat rétta leiðin eða besta ætla ég ekki að fullyrða neitt um, en meðan við erum í lokuðu hagkerfi með gjaldeyrishöft og í raun með svo mikla þörf lífeyrissjóðanna til fjárfestingar þá held ég að við þurfum að fara yfir málið þannig að allir fylgist að. Þess vegna nefndi ég ábyrgð lífeyrissjóðanna. Ég held ekki að þeir hafi misnotað heimildina en hins vegar er dæmið sem ég tel að þyrfti að skoða betur, sem sneri að Framtakssjóðnum þegar hann seldi Icelandic-merkið eða hluta af því, sláandi. Þá er mjög mikilvægt að stjórnvöld og hæstv. ráðherra séu í nánu samstarfi við þessa aðila um það hvernig menn sjái markaðinn þróast þannig að ekki sé verið að búa til eignabólur sem geta svo komið í bakið á okkur.

Það er gríðarlega mikilvægt að farið verði vel yfir þetta mál fyrir 2. umr. til að menn átti sig á því hvort einhverjar hættur séu fyrir hendi. Maður sér það ekki í fljótu bragði en það getur auðvitað verið og þó að verið sé að slaka á kröfunum væntir maður þess að lífeyrissjóðirnir muni ekki fara yfir strikið. Það eru auðvitað mjög strangar reglur um hvernig þetta skuli gert en það er nokkuð sem verður að skýrast.