141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[18:28]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er algjörlega forkastanlegt af hálfu ráðherrans, sem ég veit að gengur gott eitt til með þessu máli, að bjóða upp á svona málflutning, að málið hafi ekki verið rætt vegna þess að stjórnarandstaðan hafi hér eitthvert dagskrárvald. Hér er að störfum ríkisstjórn, alla vega að nafninu til, sem hefur með forgangsröðun verkefna í landinu að gera. Við höfum alveg séð hvaða mál eru í forgangi af þeim sem koma inn í þingið. Það eru breytingar á stjórnarskránni sem keyrðar hafa verið á dagskrá og tíma sóað, leyfi ég mér að segja — sóað. Ef hæstv. ráðherra vill ekki að málið lendi í einhverju endatafli á þinginu á hún að sjálfsögðu að koma fram með það í tíma þannig að hægt sé að vinna það vel.

Það var það sem ég var að gagnrýna áðan. Ég kaupi alveg skýringar hæstv. ráðherra um að samstarfið á milli nefndarinnar sem vinnur að breytingum á lögum um heimildirnar og þeirra sem þar eiga í hlut hafi verið gott og að menn leggi málið inn vel undirbúið, en það er samt allt of seint. Hvenær skilaði nefndin af sér? Er það eitthvað nýtt? Af hverju kom málið ekki fyrr inn? Hæstv. ráðherra, sem hefur setið á þingi og er að verða þingreyndasta konan eftir kosningar, ætti að vita að það er ekki boðlegt að láta góð mál eins og þessi, sem við getum svo sannarlega náð samkomulagi um, fara í þá hít (Forseti hringir.) og það ástand sem skapast alltaf í lokin þegar forgangsraða þarf málum. (Forseti hringir.) Þetta mál er skýrt dæmi um ranga forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.