141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[18:33]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að innra með mér bærðust blendnar tilfinningar á laugardaginn þegar við sameinuðumst um það hér, þingheimur, að gera gjaldeyrishöftin ótímabundin. Þeirri ákvörðun fylgdi hnútur í maganum, en mikilvægu skilaboðin þar voru þau að þingheimur stendur saman í þessu stærsta hagsmunamáli sem þjóðin stendur frammi fyrir í samningum við erlenda kröfuhafa. Það voru skilaboðin sem verið var að senda með því, en ég vona svo sannarlega að við berum gæfu til þess að afnema þau fyrr en síðar. Frá þeirri stefnu hefur þingflokkur Sjálfstæðisflokkurinn að minnsta kosti ekki hvikað.

Hv. þingmaður spyr um hvort lítil fjárfesting hér á landi síðastliðin ár sé kannski ástæða þess að við stöndum enn þá í þeim sporum að glíma við umrædd gjaldeyrishöft. Ég tel það. Ég tel að síðustu fjögur ár séu ár hinna glötuðu tækifæra. Það er alveg sama hversu oft hæstv. ríkisstjórn segist ekki hafa með neinum hætti komið í veg fyrir atvinnusköpun og fjárfestingu innlendra eða erlendra aðila, við vitum að það er ekki rétt. Við vitum til dæmis að fyrir tveimur til þremur árum leituðu hér fjölmargir aðilar eftir fjárfestingu. Skilaboðin sem komu frá stjórnvöldum voru hins vegar þessi: Við viljum ekkert með ykkur hafa. Það var alltaf eitthvað að þannig að sá gluggi lokaðist. (Fjmrh.: Níu fjárfestingarsamningar …) Jafnvel (Fjmrh.: Níu.) þó að hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) kalli hér fram í um að það séu níu fjárfestingarsamningar vil ég taka það sérstaklega fram (Forseti hringir.) að fjárfesting er í sögulegu lágmarki, hún hefur ekki verið minni á lýðveldistímanum (Forseti hringir.) eða á öldinni þannig að það er ekki nóg að gera fjárfestingarsamning, herra forseti.

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður hv. þingmann að virða tímamörk í andsvörum.)

Og hæstv. ráðherra að hætta að gjamma fram í og (Forseti hringir.) ...

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður hv. þingmann að halda ró sinni.) (Gripið fram í.)