141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[18:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fullvissa forseta um að hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir er pollróleg. (REÁ: … Takk.) Það þekki ég.

Við ræðum þetta stórmerkilega mál. Því er skipt í þrjá meginliði og er eðlilegt að menn velti fyrir sér þeirri tillögu um að auka svigrúm lífeyrissjóðanna. Það er einnig eðlilegt að menn hafi aðeins varann á og sýni því skilning vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru varðandi möguleika á fjárfestingum. Það sem mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann út í er hvort þingmaðurinn hafi velt fyrir sér lagarammanum sem lífeyrissjóðunum er settur varðandi fjárfestingar; þeir þurfa að skila að lágmarki 3,5% ávöxtun til þess að standa undir þeim ábyrgðum sem þeir hafa.

Er ástæða til þess í fullri alvöru að endurskoða lögin? Mér sýnist að lífeyrissjóðirnir hafi ekki treyst sér til þess að koma að verkefnum af hálfu ríkisins þar sem þessi ávöxtunarkrafa hefur staðið í veginum. Það kann að vera mjög einfölduð mynd hjá mér en eins og ég hef skilið þessi mál, eins og þau hafa verið skýrð hér í þinginu, til dæmis vegna fjárfestinga í vegamálum og Vaðlaheiðargöngum og öðru slíku, er þetta eitt af málunum sem komið hafa í veg fyrir að lífeyrissjóðirnir hafi treyst sér í slík verkefni. Því hljótum við eðlilega að spyrja hvort ástæða sé til að fara yfir lagaumgjörðina sem kallar þessa prósentutölu fram.