141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[18:38]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það er sjálfsagt ástæða til þess að fara vel yfir þessi mál og auðvitað þurfa þau alltaf að vera til skoðunar í samræmi við þær aðstæður sem uppi eru á hverjum tíma. Þetta frumvarp er til komið vegna þeirra aðstæðna sem eru á fjármálamarkaði núna og vegna þess að við erum með gjaldeyrishöft og vegna þess að lífeyrissjóðirnir hafa mikið fjármagn sem þeir vilja nú nota til að fjárfesta. Þess vegna er ég ekki með nokkrum hætti að sópa málinu út af borðinu. Það sem ég var að gagnrýna hæstv. ráðherra fyrir var hversu seint málið er fram komið.

Varðandi fjárfestingarnar og í framhaldi af því sem hv. þingmaður spurði um í fyrra andsvari og varðandi frammíkall hæstv. ráðherra um að hér hafi verið gerðir níu fjárfestingarsamningar á kjörtímabilinu, vil ég segja að það er ekki nóg fyrir hæstv. ríkisstjórn að gera fjárfestingarsamning. Við vitum til dæmis alveg nákvæmlega hvernig fjárfestingarsamningurinn vegna álversins í Helguvík fór í gegnum þingið. Ráðherrabekkurinn var í öllum litum á atkvæðatöflunni. Við vitum líka að ráðherrar í ríkisstjórninni — ég undanskil hæstv. fjármálaráðherra þó sérstaklega — hafa ekki allir meint eitthvað með þeim fjárfestingarsamningi og hafa ekki farið eftir honum eða staðið við hann frekar en svo marga aðra samninga sem hér hafa verið gerðir. Það merkilega er að nú, nokkrum dögum fyrir þinglok, sér hæstv. ríkisstjórn allt í einu ljósið. Hæstv. atvinnu-allsherjar-nýsköpunarráðherra kemur hér með 3,4 milljarða króna ívilnunarpakka fyrir eitt fjárfestingarverkefni norður (Forseti hringir.) í landi. Þá er allt í einu sú staða uppi að við eigum að lækka skatta og veita ívilnanir (Forseti hringir.) og gera alls konar góða hluti að til þess að glæða fjárfestingu hér á landi. Það hefði verið betra ef það hefði verið gert fyrr.