141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[18:40]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, sem er nú heilmikið nafn. Frumvarpið snýr að stærstum hluta að fjárfestingarheimildum lífeyrissjóðanna en það er í þremur liðum. Eins og fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins fjallar 1. gr. um að auðvelda launagreiðendum að standa við skuldbindingar sínar gagnvart lífeyrissjóðum með þeim hætti að gefa út skuldabréf sem ekki eru skráð á skipulegum markaði og lífeyrissjóðunum skal þá heimilt að eiga slík skuldabréf, óháð takmörkum greinarinnar.

Þetta er gert til þess að þau fyrirtæki sem hafa greitt vegna starfsmanna sinna í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna geti greitt þarna inn á skuldbindingar sínar það sem þau hafa þurft að gera, til að mynda verðtryggða hluta þess. Í öðru lagi er hér bráðabirgðaákvæði, framhaldsákvæði, sem heimilar lífeyrissjóðunum að fjárfesta í samlagsfélögum umfram mörk, það er framlengt frá árslokum 2013 til ársloka 2014. Í þriðja lagi eru takmörk lífeyrissjóðanna til að fjárfesta í verðbréfum, sem ekki eru skráð á skipulegum markaði, hækkuð til bráðabirgða, úr 20% í 25%, og á sú heimild einnig að renna út í árslok 2014. Ég mun aðallega fjalla um síðasta hluta frumvarpsins hér.

Ég vil þó í upphafi hafa orð á því hversu seint þetta mál kemur hér inn. Ég hlustaði á ræður hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og andsvör við hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur þess efnis að það sé stjórnarandstaðan sem stjórni dagskrá þingsins. Ég verð að segja að ég hef nú sjaldan heyrt aðra eins vitleysu. Til að mynda vitum við í stjórnarandstöðunni ekkert um það hvernig á að ljúka þessu þingi á þeim örfáu dögum sem eftir eru. Við vitum ekki einu sinni neitt um dagskrá morgundagsins, hvað þá meir. Vissulega höfum við hér dagskrá í dag og ég held að stjórnarliðum, ekki síst ráðherrum, hefði verið nær að hlusta á okkur framsóknarmenn þegar við bentum á að tíminn liði hratt og brátt yrði stutt til þingloka — við höfum bent á þetta í hvert sinn sem þingfundi lýkur, honum er frestað eða annað í þeim dúr — og því þyrftu menn að setjast niður í tíma og ákveða hvaða mál væru forgangsmál.

Einstakir þingmenn í ýmsum nefndum hafa haldið sínum málum á lofti og reynt að yfirtaka nefndirnar. Ég nefni sem dæmi atvinnuveganefnd, þar sem ég á sæti, þar sem hálfum mánuði var eytt í risastórt frumvarp hæstv. atvinnuvegaráðherra um breytingar á stjórn fiskveiða, mál sem ekki er enn komið á dagskrá og ég sé ekki að verði klárað frekar en mörg önnur á þeim skamma tíma sem eftir er til þingloka. Ef menn hefðu nú sest yfir það og ríkisstjórnin hefði komið sér saman um forgangsmálin hefði það létt mönnum róðurinn að geta undirbúið sig undir þær umræður sem þurfa að fara fram og taka þau mál á dagskrá sem allir eru sammála um að skynsamlegt sé að ljúka. Það eru fjölmörg mál, herra forseti, sem þingmenn eru sammála um að horfi til heilla fyrir land og þjóð.

Það mál sem við ræðum hér er vissulega jákvætt á mjög margan hátt. Ég nefndi áðan helstu atriði þess og í flestum tilvikum er málið ívilnandi. Það á annars vegar að hjálpa fyrirtækjum til að standa við skuldbindingar sínar svo að betri skil verði á greiðslum og hins vegar fá lífeyrissjóðirnir auknar heimildir til fjárfestinga. Við þekkjum það að í því ástandi sem er hér á Íslandi með gjaldeyrishöft þá er geta lífeyrissjóðanna eða þörf fyrir fjárfestingar alveg gríðarleg. Margir hafa bent á að nú þegar séu farin að sjást merki um svokallað bóluhagkerfi þar sem lífeyrissjóður A kaupir hlutabréf og selur síðan lífeyrissjóði B sem hækkar verðið og svo kemur lífeyrissjóður C og hækkar verðið enn frekar; og hækkanir á hlutabréfum hafa verið grunsamlega miklar, skulum við segja, á liðnum mánuðum.

Þannig að það að veita lífeyrissjóðunum heimild til þess að hækka þakið hvað það varðar að kaupa í óskráðum félögum, úr 20% í 25%, mun án efa vera hvetjandi í þetta bóluhagkerfi en um leið er þetta jákvætt gagnvart fjölmörgum fyrirtækjum sem ekki hafa burði, vöxt eða stærð á þessum tímapunkti til að vera skráð á markað, að geta sótt sér fjárfestingarfé til lífeyrissjóðanna. Þeir hafa úr að spila allt að 130 milljörðum á ári. Þessi aukning gæti skilað um 100 milljarða aukinni fjárfestingu og ekki veitir af, herra forseti.

Eins og fram hefur komið í ræðum á undanförnum dögum — og ég tók það nú til umræðu í dag við vantraustsumræðuna — hefur fjárfesting verið í sögulegu lágmarki í mjög langan tíma og allt þetta kjörtímabil. Hún hrundi við hrunið og fór mjög langt niður, var um 12% eða 10% af landsframleiðslu, 12–13%. Í opinberum spám, eftir þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á Bakka við Húsavík, er gert ráð fyrir að fjárfesting verði um 16% af landsframleiðslu. Þá benda aðilar vinnumarkaðarins á, hvort sem það eru launþegahreyfingarnar eða samtök atvinnurekenda, að það sé engan veginn nóg, að það skorti um 100 milljarða fjárfestingu á ári til að hún geti orðið ásættanleg, hún þurfi að vera yfir 20% á hverju ári í allnokkurn tíma til að koma almennilega fótum undir efnahagslífið, til að tryggja öllum þeim sem eru atvinnulausir í dag og nýjum árgöngum sem eru að koma inn á vinnumarkaðinn atvinnutækifæri við hæfi.

Herra forseti. Ég verða að segja að ég er nokkuð jákvæður gagnvart þessari breytingu, þ.e. að auka heimildir lífeyrissjóðanna, þó svo að ég sé með nokkra fyrirvara, eins og ég hef sagt, um að skoða þurfi hvort þetta muni stuðla að bóluhagkerfi og einnig hvort, eins og ég nefndi í andsvari við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, verið sé að skapa væntingar á síðustu dögum þingsins, rétt fyrir kosningar, um að möguleiki sé á 100 milljarða fjárfestingu á ári. Þær væntingar munu aldrei standast vegna þess að lífeyrissjóðirnir munu aldrei ganga svo langt, tækifærin eru of óljós, þessir fjárfestingarmöguleikar eru ekki nægilega tryggðir og menn munu ekki þora að fara út í þessar fjárfestingar. Ég spyr hvort verið sé að vekja væntingar sem síðan verði ekki að veruleika.

Herra forseti. Ég bendi á fordæmið með Framtakssjóðinn sem lífeyrissjóðirnir stofnuðu ásamt Landsbankanum. Þá voru miklar væntingar um að sá sjóður væri að fara inn á atvinnumarkaðinn til að taka þátt í uppbyggingu á nýjum fyrirtækjum, á nýjum atvinnutækifærum, og fjölga störfum. Reyndin varð sú að Framtakssjóðurinn fór meira og minna í að kaupa eldri fyrirtæki, sem voru komin í gjörgæslu bankanna eða gjaldþrota inn í eignarhaldsfélög bankanna, endurskipuleggja þau og selja aftur. Þar af leiðandi sköpuðust engin ný störf, þetta hafði vægast sagt vafasöm áhrif á samkeppni í sumum tilvikum, alla vega settu margir spurningarmerki við þá samkeppni sem menn þurftu að búa við, þeir sem voru áfram að berjast á markaði á eigin fótum með stökkbreyttar skuldir, að keppa við fyrirtæki sem höfðu farið þarna í gegn og voru með lífeyrissjóðina og Landsbankann á bak við sig.

Þessi tillaga, sem hér er kynnt sem 3. gr., þessi hugmynd, var meðal annars kynnt sem hugmynd Samfylkingarinnar á síðastliðnu tækni- og hugverkaþingi og fékk þar fyrstu einkunn, skoraði hæst í atkvæðagreiðslu meðal þeirra sem sátu þingið. Margir voru mjög jákvæðir gagnvart þessu vegna væntinga um að þarna gætu skapast góðir möguleikar fyrir fyrirtæki að sækja sér fé til fjárfestinga. Á þessu þingi, eins og ég nefndi í andsvari við hæstv. ráðherra, vorum við framsóknarmenn einnig með nokkrar tillögur og ég nefndi eina tillöguna og spurði hæstv. ráðherra út í hana. Það er tillaga sem ég ætla aðeins að fjalla um undir lok míns máls, þ.e. að lífeyrissjóðirnir megi kaupa í félögum á svokölluðum First North markaði.

Flutningsmaður þeirrar tillögu á umræddu tækni- og hugverkaþingi var Frosti Sigurjónsson, frambjóðandi Framsóknarflokksins í 1. sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður, og gengur hún út á það að rýmka þurfi heimildir lífeyrissjóðanna til að kaupa í smáum og meðalstórum félögum. Skref í þá átt er að hlutabréf á First North flokkist sem skráð verðbréf. Það kom fram í greinargerð, sem Frosti kynnti á áðurnefndu þingi, að smá og meðalstór fyrirtæki eru lykillinn að atvinnusköpun í landinu og að nauðsynlegt sé að auðvelda þeim aðkomu að virkum hlutabréfamarkaði svo að þau geti betur nýtt tækifæri sín og dafnað af krafti og einnig sé mikilvægt að lífeyrissjóðunum verði auðveldað að fjárfesta í smáum og meðalstórum fyrirtækjum, en þau skapa, eins og flestir vita, flest störf og hafa mikla vaxtarmöguleika. Allt eru þetta góð markmið.

Kauphöll Íslands starfar samkvæmt reglum sem sniðnar hafa verið að þörfum milljónaþjóða þar sem fyrirtæki geta almennt orðið stærri en hér og hægt að gera meiri kröfur til þeirra varðandi skráningu en mjög fá íslensk fyrirtæki hafa því miður skráð sig í Kauphöllina. Þau fyrirtæki sem eru orðin nægilega öflug til að geta uppfyllt kröfur um skráningu sjá ef til vill ekki mikinn hag í því að þiggja skráningu á svo litlum markaði og skrá sig frekar erlendis. First North markaðurinn er aftur á móti sniðinn að smærri fyrirtækjum og hann gerir ívið minni kröfur til fyrirtækja þó að vissulega séu þær ríflegar fyrir smá fyrirtæki. Afar fá fyrirtæki hafa þó ráðist í skráningu á First North markaðnum og nærtækasta skýringin er sú að kaupendur vanti og hlutafélög sem skrá sig á First North teljast nefnilega ekki vera skráð, eins og áður hefur verið komið inn á, og lífeyrissjóðunum eru settar miklar skorður um kaup á óskráðum félögum.

Ég vil þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir að taka jákvætt í þetta og það hefði vissulega verið jákvætt ef þessi tillaga hefði jafnframt ratað hér inn í frumvarpið. En eins og ég kom inn á í upphafi máls míns veit ég ekki hvort þessi vika muni duga okkur til að klára þetta mál sem á margan hátt er jákvætt og rennir stoðum undir atvinnulífið í heild sinni. Eins og við þekkjum eru um 90% fyrirtækja á Íslandi lítil eða smá og meðalfyrirtæki langsamlega stærsti hluti í fyrirtækjaflóru landsins.

Það var reyndar ein spurning sem ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra en gafst ekki tækifæri á þeim skamma tíma sem gafst til andsvara, en það er mál sem ekki er í þessu frumvarpi og ekki heldur í ívilnunarfrumvarpinu, í máli nr. 502, en hefur ítrekað komið fram á tækni- og hugverkaþinginu um það hvort — og var reyndar í frumvarpi um ívilnanir en Eftirlitsstofnun EFTA kippti því út sem ólöglegum ríkisstuðningi, sem ég hef nú ekki alveg skilið, en það er sem sagt skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa í nýsköpunarfyrirtækjum. Ég sakna þess að ríkisstjórnin hafi ekki nýtt sér tímann í vetur til að koma því góða máli hér inn í frumvarpsformi til að við getum lokið því.

Herra forseti. Eins og ég sagði er ég frekar jákvæður gagnvart þessu frumvarpi. Það þarf augljóslega að skoða það, sérstaklega með tilliti til þess hvort væntingavísitalan fari of hátt, en kannski verði ekki eins margir sem muni nýta sér þessi úrræði meðal annars vegna hættu á bóluhagkerfi eða hættu á að fjárfestingarnar séu ekki nægilega tryggar.