141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[18:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að ástæða sé til taka málinu almennt jákvætt þótt það veki sannarlega upp ýmsar spurningar. Mér er alveg ljóst að málið er þannig vaxið að við því er að búast að efnahags- og viðskiptanefnd, sem ég geri ráð fyrir að fái það til meðhöndlunar, þurfi að leggjast dálítið yfir það.

Það sem mér finnst athyglisvert er að skoða hvað er í rauninni verið að gera hérna. Annars vegar er verið að opna eða reyna að auðvelda fyrirtækjum, eins og segir í greinargerð með frumvarpinu, að standa skil á greiðslum sínum til lífeyrissjóða. Það vekur aftur upp hugrenningatengsl við málið sem við ræddum nokkuð fyrir helgina og fól í sér aukna greiðslufresti fyrir fyrirtæki að standa skil á opinberum gjöldum sem undirstrikar auðvitað þá rekstrarlegu stöðu sem atvinnulífið á Íslandi er almennt talað í. Í raun og veru er þetta viðbragð við því, enn eitt viðbragðið. Í stað þess að reyna að búa til almennrar leikreglur fyrir fyrirtækin er verið að reyna að búa til útgönguleiðir fyrir þau með auknum gjaldfrestum, með því auðvelda fyrirtækjum að standa skil á greiðslu til lífeyrissjóða o.s.frv.

Á hinn veginn er verið að bregðast við því óeðlilega ástandi sem er uppi í þjóðfélaginu í dag með gjaldeyrishöftum. Gjaldeyrishöftin voru rædd á laugardaginn, eins og við munum, og var reynt að setja þau inn í ákveðinn ramma sem þingið sameinaðist um. Í þessu frumvarpi er í rauninni verið að bregðast við þeim veruleika sem fyrirtækin standa frammi fyrir, gjaldeyrishöftunum. Þau gera það að verkum að fyrirtækin, eða lífeyrissjóðirnir öllu heldur, eiga mjög fáa fjárfestingarkosti innan lands og geta ekki sinnt möguleikum sínum á ávöxtun með því að fara með hluta af fjármunum sínum til útlanda, sem væri mjög æskilegt, til að geta haldið uppi ávöxtuninni. Þess vegna er verið að opna slíkar leiðir, til að auðvelda fyrirtækjunum að taka þátt í því að kaupa (Forseti hringir.) verðbréf sem eru ekki á skráðum markaði.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki eins og ég að þarna birtist okkur í raun og veru (Forseti hringir.) birtingarmynd þess óeðlilega ástands sem er í fyrirtækjaumhverfinu í dag.