141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[20:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki í stakk búinn til að svara strax hvað gerist varðandi ávöxtunarkröfuna eins hv. þingmaður nefndi hana. Í raun er hún ávöxtunarviðmið vegna þess að sú ávöxtun er notuð við útreikning lífeyrissjóðanna og miðar að því að ungir sjóðfélagar séu jafnsettir öldruðum, þ.e. þeir sem eru að byrja í lífeyrissjóðunum séu jafnsettir þeim sem eru að fara á lífeyri og á að taka mið af langtímaávöxtun lífeyrissjóðanna. Þegar viðmiðið var ákveðið 1980 var reiknað með að 3,5% yrði meðalávöxtun. Það hefur reynst vera rétt síðan þá.

Núna horfum við fram á að fáir ávöxtunarkostir eru í boði og lítill hugur í fólki. Ávöxtunarkrafan á spariskírteinum er komin niður fyrir 2% raunávöxtun, sem segir mér að annaðhvort þarf að takmarka fjármagn í umferð með því til dæmis að semja við kröfuhafana um að krónueignirnar gufi upp í einhverjum skilningi, eða stórauka fjárfestingargleði í íslensku atvinnulífi.

Annað þarf að skerða. Ég get komið með töflu sem ég er með í frumvarpi um að sjóðfélagar kjósi stjórnir lífeyrissjóða. Ég er einmitt með töflu um hvernig það virkar þegar ávöxtunarviðmiðin eru lækkuð. Það þýðir annaðhvort stórhækkuð iðgjöld eða mikla skerðingu á lífeyri.

Varðandi hvað hægt er að gera með það mikla fjármagn sem lífeyrissjóðirnir þurfa verðum við að fara að búa til fjárfestingartæki og fjárfestingargleði ef við ætlum að fjárfesta innan lands. Það er kannski aðallega það seinna sem er mikilvægt, að fólk og fyrirtæki séu tilbúin til að fjárfesta.