141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[20:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir góð og greið svör. Það er mjög ánægjulegt að hún skuli taka þátt í umræðunni sem verður miklu liprari fyrir bragðið. Ég hlakka til að sjá listann yfir þá launagreiðendur sem geta notað 1. gr. Það er alls ekki þannig að um sé að ræða launagreiðendur sem greiða laun í dag, langt í frá. B-deildinni var lokað fyrir nýjum sjóðfélögum 1997. Allir sem höfðu greitt fram að þeim tíma og voru greiðendur á þeim tíma héldu áfram að greiða í hana. Það er því náttúrlega fjöldi fólks sem greiddi einhvern tímann í hana og er annaðhvort komið á lífeyri eða farið í önnur störf en á réttindi. Það er þannig að fyrirtækinu eða stofnuninni ber að borga hækkun á lífeyri en ríkissjóði, sem bakábyrgðaraðila, ber að borga skuldbindinguna sjálfa ef hækkun á lífeyri dugar ekki til. Þess vegna er það hagur ríkissjóðs að verðbólga sé sem mest. Það er svo merkilegt. Þá hækka launin meira og stofnanirnar og fyrirtækin borga meira inn ef þau geta. Þá reynir á það sem verður mjög athyglisvert og ég fékk ekki svar við: Hvað gerist ef fyrirtæki eða stofnun getur ekki staðið við greiðslu á lífeyrishækkunum sem þeim ber að greiða samkvæmt lögum og viðkomandi fyrirtæki verður greiðsluþrota?

Ég hlakka til að sjá lista yfir þau fyrirtæki. Við munum þá fara í gegnum hvort ekki þurfi að bæta við greinina að tímalengd skuldabréfsins sé í samræmi við tímalengd skuldbindingarinnar eða eitthvað slíkt, ekki lengri alla vega. Ég held að sú grein verði til bóta að því leyti að fyrirtækin eða stofnanirnar verða að koma með ákveðið greiðsluplan.