141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[20:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að mæla fyrir þessu frumvarpi og fyrir að vera hér og svara þeim fyrirspurnum sem hafa komið fram.

Það er að sjálfsögðu mikilvægt þegar við horfum á lífeyriskerfi landsmanna að allir geri sér grein fyrir því að lífeyriskerfi í hvers konar mynd sem það kann að vera er að sjálfsögðu afar mikilvægt fyrir samfélag okkar og að við séum með kerfi sem menn geta greitt til eða í það minnsta horft til þegar þeir fara að huga að hinum góðu árum, ef ég má orða það þannig.

Kerfi okkar Íslendinga byggir á þremur meginstoðum sem eru sameignarlífeyrissjóðir, frjáls eignarsparnaður og almannatryggingar. Við vorum einmitt að ræða hér breytingar á almannatryggingunum fyrir skömmu sem er gríðarlega stórt og mikið mál sem er nú farið til nefndar, en vandséð að hægt væri að klára það á þeim fáu dögum sem eftir eru vegna umfangs þess máls einfaldlega.

Hér er komið annað mál sem varðar nokkrar breytingar, sér í lagi fjárfestingarmöguleika lífeyrissjóðanna. 1997 voru sett lög um lífeyrissjóði sem setja þeim ákveðnar takmarkanir eða skorður og viðmiðanir varðandi fjárfestingar. Samkvæmt skýringum með þeim lögum eru þau meðal annars til þess að takmarka áhættu og tryggja réttindi. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að það fari saman. Lífeyrissjóðum á Íslandi hefur fækkað töluvert síðan þessi lög voru sett. Í dag eru þeir eitthvað í kringum 30, ég hef ekki töluna alveg á hreinu.

Munurinn á milli réttinda innan almenna lífeyrissjóðakerfisins og hins svokallaða ríkiskerfis er eilíft til umræðu, eðlilega. Ég held að sé mikilvægt að koma því hér á framfæri að umræða um lífeyrisréttindi tekur gjarnan mið af því að jafna beri réttindin en ekki endilega að setja einhverjar skorður við því í hvaða sjóði menn greiða lífeyri. Ég tek að sjálfsögðu undir það að við verðum að reyna að jafna þessi réttindi. Það hefur því verið athyglisvert að fylgjast frá fyrstu hendi með tveimur einstaklingum sem búa saman. Annar þeirra þiggur greiðslur úr almenna lífeyrissjóðakerfinu en hinn úr ríkistryggðu sjóðunum. Búið er að skerða töluvert mikið greiðslur úr hinum almenna lífeyrissjóði en ekki úr hinum. Að sjálfsögðu er það vegna þeirrar ábyrgðar sem þar er til staðar.

Við höfum verið að velta því fyrir okkur í þessari umræðu hvaða leið sé verið að fara með því að auka svigrúmið fyrir því að fjárfesta í óskráðum bréfum. Fram komu hjá hv. þm. Lilju Mósesdóttur ýmis varnaðarorð gegn því að rýmka þetta og vitnaði hún þá í söguna og reynsluna sem við höfum af fjármálahruninu, hinu alþjóðlega fjármálahruni sem varð í heiminum og náði að teygja arma sína hingað. Íslenskir lífeyrissjóðir töpuðu, ef ég man rétt, um 500 millj. kr. Í dag er neikvæð staða þeirra eitthvað svipuð tala, held ég, þ.e. tryggingafræðileg staða. Við erum því alltaf að tala um miklar upphæðir og háar. Það væri forvitnilegt fyrir nefndina sem fær þetta mál til meðferðar, væntanlega efnahags- og viðskiptanefnd, að velta fyrir sér hve stór hluti af því sem tapaðist af eignum lífeyrissjóðanna var í óskráðum félögum.

Ég er ekki, virðulegur forseti, með þessu að segja að ég muni leggjast gegn þessu frumvarpi. Ég vil þó koma hér ákveðnum varnaðarorðum á framfæri. Við skiljum þörf lífeyrissjóðanna fyrir því að fjárfesta, að geta uppfyllt þær kröfur sem til þeirra eru gerðar, en að sama skapi er eðlilegt að við setjum spurningarmerki við þetta og veltum því fyrir okkur hvaða áhrif það kunni að hafa.

Menn hafa skiptar skoðanir á þessu máli öllu, frá A til Ö, þ.e. hvernig lífeyrissjóðirnir starfa og hvernig þeir ávaxta sitt pund eða krónur o.s.frv. Það kom fram hér áðan að frá 1980 — ég held að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi nefnt það ártal — hefðu þeir staðið undir þessum 3,5%. Mig minnir hins vegar að síðastliðin tíu ár hafi ávöxtunin verið rúmlega 2%. Allt liggur þetta nú fyrir einhvers staðar skráð niður.

Það er um að gera að velta því fyrir sér þegar svona mál kemur upp og við förum að ræða þá þörf sem er til staðar að lífeyrissjóðirnir eru að sjálfsögðu, eins og ég sagði áðan, geysimikilvægur þáttur í samfélaginu. Þeir eru líka mikilvægur þáttur af viðskiptalífinu. Í sjálfu sér má velta fyrir sér hvort þetta sé óeðlilegt eða eðlilegt þegar fyrir liggur að þörf þeirra fyrir fjárfestingar til að uppfylla skyldur sínar snýst um nokkur hundruð milljarða á næstu missirum og árum. Við hljótum að þurfa að eiga samtal við þessa aðila um það hvernig best sé að sjá til þess að þeir geti staðið undir hlutverki sínu ef menn hafa engar aðrar lausnir til að mæta þessum þörfum og kröfum. Það kemur fram í frumvarpinu að fjárfestingarþörfin sé 100–130 milljarðar kr. á ári. Það eru að sjálfsögðu gríðarlegir fjármunir og skiptir miklu að þeir verði til þess að frekari fjárfestingar aukist til þess að hér verði vöxtur í efnahagslífinu og störfum fjölgi. Það er mikilvægt að lífeyrissjóðirnir spili með öðrum aðilum og leikendum á þessum velli til að ná slíkum markmiðum.

Frumvarpið er í sjálfu sér ekki margar greinar. Það er hins vegar innihaldið sem kannski er eðlilegt að menn velti vöngum yfir. Hér hefur 1. gr. verið gerð að umtalsefni, sem fjallar um, eins og segir í greininni, að nú greiði „launagreiðandi inn á skuldbindingu sína við lífeyrissjóð, sem nýtur bakábyrgðar ríkis eða sveitarfélags, með því að gefa út skuldabréf sem ekki eru skráð á skipulegum markaði“. Það er í rauninni verið að auka þarna svigrúm til þess að auðvelda launagreiðendum að standa við þær skuldbindingar sem þeir hafa tekist á hendur. Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir það í máli sínu þegar hann mælti fyrir frumvarpinu.

Einnig er hér bráðabirgðaákvæði sem heimilar lífeyrissjóðum að fjárfesta í samlagsfélögum, eins og það er orðað. Samlagsfélag er félag þar sem einn eða fleiri félagsmenn deila ábyrgð. Það er annað félagsform en á hlutabréfamarkaðnum og er kannski ágætt að það svigrúm aukist líka.

Í þriðja lagi er hér talað um takmörk lífeyrissjóða til að fjárfesta í verðbréfum sem ekki eru skráð, eins og ég nefndi áðan. Þau eru hækkuð úr 20 í 25% til bráðabirgða. Það er ekki gott að spá fyrir fram hver áhrifin verða af þessu. Ég veit þó að lífeyrissjóðunum hugnast þetta ágætlega, enda þurfa þeir eins og áður hefur komið fram að koma þessum fjármunum í ávöxtun einhvers staðar eða gera tilraun til þess. Að sama skapi eru lífeyrissjóðir ekki hafnir yfir það — ég veit að þeir ætlast ekki til þess — að störf þeirra séu rýnd og gagnrýnd ef því er að skipta.

Það er óhætt að lýsa ákveðnum vonbrigðum með það sem fram kom í ræðu hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni, 1. þm. Norðvesturkjördæmis, að Framtakssjóðurinn sem er að stærstum hluta í eigu lífeyrissjóðanna skyldi hafa selt og þar með misst frá sér vörumerkið Icelandic sem hv. þingmaður benti á að er nú notað yfir kínverskan fisk sem er pakkaður einhvers staðar og seldur undir þessu merki á mörkuðum. Hvað sem kann að vera sagt um gæði þessa hráefnis og svo framvegis þá hlýtur það að vera markmið okkar að hvika hvergi eða gefa neinn afslátt af þeim auðlindum sem við erum hvað þekktust fyrir, þ.e. að skila hreinum og góðum afurðum sem eru framleidd í besta mögulega umhverfi. Það er í rauninni sorglegt að við skyldum tapa þessu vörumerki. Við því er væntanlega ekkert að gera eins og staðan er í dag.

Herra forseti. Mig langar að nefna það sem hefur komið fram að ástæðan fyrir því að þessi leið er farin er að sjálfsögðu sú að það vantar fjárfestingarkosti fyrir lífeyrissjóðina. Ætla mætti að hagur þeirra lægi einnig í því að aðstoða stjórnvöld á hverjum tíma við að ná stöðugleika í efnahagsmálum og atvinnumálum með því að horfa til fjárfestinga sem gefa af sér arð og leiða á endanum til þess að við getum afnumið fjármagnshöft hér o.s.frv. þannig að allra hagur verði ofan á þegar horft er til framtíðar.

Ég hef reynt að koma á framfæri ákveðnum áhyggjum vegna þeirrar heimildar sem verið er að útvíkka hér. Eins og ég sagði áðan kann vel að vera að hjá því verði ekki komist. Ég held að hins vegar að eðlilegt sé að gera þá kröfu til þeirra sem stjórna lífeyrissjóðunum að mjög varlega sé farið og gætt að því að sagan endurtaki sig ekki.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, að ef hér væri meiri stöðugleiki og meira traust væru fjárfestingar örugglega á meiri ferð en verið hefur. Mörg fyrirtæki þurfa á fjármagni að halda í nýsköpun og öðrum greinum. Vonandi getur þetta mál með einhverjum hætti komið hjólunum af stað nái það fram að ganga.

Það er eðlilegt að gera þá kröfu til nefndarinnar að vandlega verði farið yfir málið og kostum og göllum velt upp, áhættan metin og í framhaldinu verði ef til vill lagðar til einhverjar breytingar eða í það minnsta slegnir varnaglar í nefndaráliti sem væntanlega mun fylgja með afgreiðslu nefndarinnar.

Forgangsverkefni okkar allra er að sjálfsögðu að koma hjólum atvinnulífsins af stað og lækka um leið skuldir og koma heimilunum á snúning. Ég hef oft gagnrýnt tregðu lífeyrissjóðanna til að koma að því verkefni. Það kemur þeim væntanlega ekkert á óvart að ég geri það hér með aftur. Svigrúm þeirra til slíks er að þeirra mati lítið. Við erum bara ósammála um það. Mér finnst eðlilegt að gera þá kröfu að sjóðirnir sýni því fólki sem greiðir í lífeyrissjóðina og mun að sjálfsögðu taka út úr þeim þegar aldurinn færist yfir, unga fólkinu í dag, möguleika á að lifa þokkalegu lífi á, ekki bara á efri árum heldur líka þeim árum sem tíminn á að vera hvað bestur.

Herra forseti. Ég hef ekki meira um þetta að segja að sinni. Ég held ég hafi komið þeim varúðar- og hugðarefnum sem ég var með á framfæri. Ég vona að nefndin fari vel yfir málið eins og ég sagði áðan.